145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[18:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt fyrst sem hv. þingmaður nefndi varðandi ábyrgðarmennina og möguleika þeirra að ganga inn í lánin. Ég held að þetta sé mikilvægur punktur eða atriði sem hv. þingmaður nefndi. Ég held að það sé sjálfsagt mál að skoða það alveg sérstaklega. Ég held að það sé réttlætismál ef þetta er svona. Ég játa það reyndar að ég þekki þetta ekki alveg. Mér finnst alveg eðlilegt að þetta verði skoðað sérstaklega.

Hvað varðar það hvert íslenskir námsmenn fara og hvaða hópar þetta eru sem við horfum til þá er það svo að einungis 1% námsmannanna okkar tekur námslán núna í dag sem eru yfir 17,5 milljónum. Það fyrirkomulag sem við horfum á núna, 15 milljónir í lán og síðan næstu 3 milljónir í styrki, nær til þess að gera yfir allan nemendahópinn. Þá koma auðvitað upp umræður, eðlilega. Menn fara í mjög dýra háskóla, einkum í Bandaríkjunum og Bretlandi líka — ef ég man rétt er hv. þingmaður menntaður í Bretlandi eins og ég (ÁPÁ: … ekki þar.)— ekki þar, þar eru góðir skólar. En ég hef haft þá skoðun að þegar menn fara í bestu bandarísku háskólana, einkaskólana, borga þar auðvitað heilmikil skólagjöld og við lánum fyrir því og inn í slíkt nám, þá finnst mér alveg eðlilegt að fólk sem kemur í gegnum það menntakerfi sem hefur miklu meira aflahæfi en flestir allir aðrir, mér finnst það ekkert ósanngjarnt eða rangt, ég held að það muni ekkert stöðva fólk í því að leita sér að slíku námi, að menn borgi eitthvað til baka. Á sama tíma eru opnir skólar á Norðurlöndunum, á Íslandi, í Evrópu og víðar þar sem eru mun lægri skólagjöld eða jafnvel ekki skólagjöld, sem eru mjög góðar menntastofnanir og veita alveg frábæra menntun. Þannig að ég held að þessir möguleikar séu allir opnir.

Ég tel svo vera að með því fyrirkomulagi sem við erum að leggja upp með hér sé með engum hætti verið að draga úr jafnrétti til náms. En við erum vissulega að breyta því hvernig styrknum er skipt. Þá erum við m.a. að horfa á það að ýmsar stéttir sem núna fá mjög lítinn styrk frá okkur, sem eru margar af þeim stéttum sem við ræðum oft um hvað varðar kaup og kjör og stöðu þeirra hér, (Forseti hringir.) taka lítið námslán en greiða til baka mjög hátt hlutfall. Við erum að segja: Við viljum að þið fáið líka styrk.