145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[18:22]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég er sammála því. Ég held að mikilvægt sé að það fari fram slík heildstæð greining. Ég hef verið svolítið hissa, ég verð að viðurkenna það, á viðhorfi ríkisstjórnarinnar gagnvart vaxtabótum og barnabótum og að menn segi það opið að markmiðið sé að það sé ekki nema fátækasta fólk sem eigi að fá þær. Upphaflegt markmið bæði vaxtabóta og barnabóta — þetta var hluti af kynslóðasáttmála — var að það átti að styðja við fólk þegar útgjöldin væru mikil vegna húsnæðisöflunar og vegna uppeldis barna, síðan greiddu menn þetta til baka í sköttum þegar fólk væri farið að borga ríflega skatta síðar á starfsævinni. Grundvallarhugmyndin var því alltaf að þetta færi upp drýgsta hluta tekjustigans. Svo alltaf þegar hefur á bjátað og þurft að spara í ríkisfjármálum settu menn einhverjar hömlur en síðan hefur alltaf verið markmið að hækka þetta aftur. Nú eru hins vegar góðæristímar og við erum með ríkisstjórn sem setur að markmiði að lækka þetta og segir einfaldlega: Markmið okkar er að enginn sé á barnabótum og vaxtabótum nema hann sé bláfátækur. Það er grundvallarbreyting. Það mun hafa mikil áhrif og þess vegna held ég að það þurfi einhvers konar, eins og hv. þingmaður stingur eiginlega upp á, ákveðna lífskjaraanalýsu. Ef við gefum okkur að skerðingarmörk barnabóta og vaxtabóta verði eins stíf og þau eru núna, hvaða framtíð bíður þá t.d. leikskólakennara eða grunnskólakennara sem eru á þeim launum að þeir rétt skríða yfir skerðingarmörkin og fá þá skertar eða litlar barnabætur eða vaxtabætur, borga með eigin séreignarsparnaði fyrir lækkun húsnæðislána og eiga engan varasjóð í formi séreignarsparnaðar í næstu kreppu, því að það vitum við nú á Íslandi að það kemur alltaf kreppa? Það var mjög athyglisvert að sjá hvað séreignarsparnaðurinn nýttist vel í kreppunni síðast. Ég held að þetta sé heildstæð analýsa sem væri gott að færi hér fram.