145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[18:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og vil aðeins koma inn á þá umræðu sem hann hóf máls á um hin svokölluðu Íslandslán eða 40 ára lán. Í núgildandi námslánakerfi eru mjög löng lán og þau eru verðtryggð. Þau fylgja mönnum reyndar alveg til grafar ef því er að skipta. Ég fagna því ef hægt er að koma auga á betri leið en lagt er upp með með þessu lánsformi sem kemur betur út fyrir lántakendur, ef það er hægt þá hljótum við að sjálfsögðu að vera opin fyrir því og algjörlega eðlilegt að það sé rætt.

Ég vil þó nefna að það er hægt að nálgast þetta þannig að menn geta stillt af lánstímann sjálfir ef þeir vilja borga hraðar upp. Þetta eru vissulega verðtryggð lán en við þekkjum það úr íslensku efnahagsumhverfi að vaxtaprósentan á óverðtryggðum lánum er þannig að ég mundi hafa áhyggjur af því að það væri nægilegt jafnrétti til náms ef við værum með þetta í óverðtryggðu umhverfi.

Síðan vil ég nefna það sem hv. þingmaður velti fyrir sér varðandi lánsfjárhæðina. Það er þó þannig að ef við skoðum hversu stór hluti námsmanna er með lán undir 10 milljónum þá eru það 93% námsmanna og undir 15 milljónum, það eru einungis 2% þar fyrir ofan, 98% eru undir 15 milljónum. Síðan kemur styrkurinn, reyndar lánsmöguleikarnir núna eða styrkmöguleikinn í það heila er þá 15 milljóna lán og 3 milljónir í styrk, 18 milljónir, þannig að meginstabbi námsmannanna er á bilinu 0–5 milljónir. Það sem við erum að gera með þessu fyrirkomulagi er að dreifa að mínu mati með sanngjarnari hætti styrk til aðila sem hafa fengið mjög lítinn styrk hingað til, sem eru reyndar einmitt þær stéttir sem við viljum gjarnan (Forseti hringir.) styðja meira við og gerum það í gegnum námslánakerfið með þessum hætti. Ég held að það sé ágætt.