145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[18:40]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir andsvarið. Eins mikið og ég er á móti verðtryggðum lánum þá ákvað ég einmitt að slá það ekki út af borðinu og gera lítið úr þeirri vinnu sem búið er að leggja í þetta frumvarp þegar ekki er víst að neitt betra finnist. Mig langaði hins vegar að nefna þessar vangaveltur mínar. Ég hef líka áhyggjur af því að ef við ætlum að fara í óverðtryggt kerfi þar sem væru kannski 3–3,5% hærri vextir, hvort við værum á verri braut þar.

Svo er ég sammála hæstv. ráðherra og ég sé í frumvarpinu að flestir eru með á bilinu 0–5 milljónir í námslán. Nú þegar styrkurinn nær upp í rúmlega helminginn af því þá sýnist mér að það yrði, alla vega fyrir mig og marga í kringum mig, hvatning til þess að vera í litlu hlutastarfi með, sleppa því að taka námslán upp á svo lága upphæð, halda þá annaðhvort að sér höndum í þann tíma sem maður er í námi, því að það er ekki óeðlilegt, og/eða taka að sér litla aukavinnu sé maður í þannig námi að það sé mögulegt. Ég held að það gæti verið meiri hvatning en við áttum okkur á í fyrstu að hafa námsstyrk sem gæti brúað bilið fyrir stóran hóp ef ekki stærstan hóp.