145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[18:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, styrkirnir eru ótekjutengdir þannig að með því að vinna með þeim, og það er auðvitað mikill fjöldi nemenda sem gerir það, má brúa bilið. Enn og aftur, af 25.000 nemendum sem eru í lánshæfu námi taka rétt rúmlega 10.000 lán.

Ég held að þetta verði til mikilla bóta og geti haft veruleg áhrif. Ég vil líka minna á annað, það hefur lítið farið fyrir því í umræðunni, en við erum að opna með þessu frumvarpi á það að þeir sem eru í iðn- og verknámi og hafa til þess aldur geti fengið og muni fá þennan styrk ef þeir standast námskröfur. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það séu verulegar úrbætur og stórt skref sem við værum að taka þar.

Síðan vil ég segja hitt að mér finnst áhugavert sem þingmaðurinn nefndi og vil árétta að þegar við horfum á samspilið, þegar við horfum til barnabóta og meðlaga, styrksins og síðan þess að tekin séu námslán sem þá fari með viðkomandi námsmann upp í framfærsluviðmiðið sem liggur fyrir, t.d. fyrir einstætt foreldri með eitt eða tvö börn, er niðurstaðan sú, ef horft er á það mark, framfærsluviðmiðið, kemur þetta kerfi betur út. Auðvitað er hægt að taka meiri lán og fara umfram það og alveg upp í topp, það er þá önnur staða sem myndast, en ef horft er á (Forseti hringir.) þetta hlýtur það auðvitað að vera mikið gleðiefni að þessir einstaklingar komi betur út hvað varðar endurgreiðslurnar.