145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[18:47]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir hugleiðingarnar. Svar mitt við þessu er: Nei, ég held að þetta sé mjög gott kerfi sem verið er að hugsa hér upp. Endurgreiðslurnar hjá allt að 85% nemendum munu lækka við þetta þannig að við erum að ná þarna til 85% nemenda sem munu þá borga minna í lán eða ekki. Síðan veit ég ekki hvernig það muni virka í praktík að pikka út þá sem þurfa á því að halda og þurfa ekki á því að halda. Við erum með misdýrar skólabækur, við erum misnægjusöm þannig að ef við pikkum einhvern út sem ríkið telur að þurfi ekki á þessu að halda þarf hann kannski bara að fara að leita sér að vinnu í staðinn. Ég held að það sé mjög erfitt.

Eitt af því sem mér finnst svo gott, það góða við þetta kerfi er að það er gegnsætt, það er gegnsærra en það sem er núna. Mín skoðun er sú að við ættum ekki að leitast við það að flækja það sem við vildum gera einfalt. Það sem námsmenn vildu að væri einfalt væri gegnsætt og jafnræði væri, það væri sama fyrir alla. Frekar ættum við að — núna setjum við líklega um 2,3 milljarða auka í kerfið ef 60% af þeim sem voru áður á námslánum fari á styrk, hugsanlega eigum við að setja meiri pening eða þá aðrar aðgerðir til að ná til þessa hóps sem hv. þingmaður nefndi.