145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[18:49]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Ef við hefðum ótakmarkað fjármagn væri þessi hugmynd, að styrkja alla um ákveðna upphæð, verulega góð. En við höfum ekki ótakmarkað fjármagn. Þess vegna erum við í rauninni að hækka á móti lán til þeirra sem raunverulega þurfa að taka lán, t.d. fólk sem fer í nám eftir að hafa eignast börn eða aðstæður eru bara þannig að það þurfi að taka lán. Það er spurning hvort það sé réttlætanlegt að hækka kostnað hjá því fólki. Þegar ég segi: Hvernig ætlum við að pikka út þá sem þurfa og þurfa ekki á að halda? er alveg augljóst að nemar sem eru á leigumarkaði þurfa á aðstoð að halda. Það er í mínum huga alveg kristaltært. Það er í rauninni ekki erfitt að pikka þá út og þess vegna spyr ég: Væri ekki góð hugmynd að niðurgreiða eða styðja miklu betur við þá háskólanema sem þurfa að vera á leigumarkaði á meðan þeir stunda sitt nám?

Ég tek líka fram að það getur verið hið besta mál (Forseti hringir.) fyrir Reykvíkinga að fara norður til Akureyrar og leigja þar og stunda nám og það er líka bara eitthvað sem víkkar sjóndeildarhringinn þannig að það ætti líka að vera hvati til þess að fara að heiman og stunda nám úti á landi eða í útlöndum eða hvar sem er.