145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[19:14]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka fyrir ræðu hv. þingmanns og spyrja hana um námsmenn sem koma utan af landi, af því að ég heyrði að hv. þingmaður reifaði að það væru sér í lagi konur utan af landi, námsmenn utan af landi sem eru konur, sem nýja kerfið mundi mögulega ekki gagnast að öllu leyti. Þá langar mig að fá að heyra frá hv. þingmanni hvort hún gæti séð eitthvert annað kerfi sem mundi mögulega gagnast námsmönnum utan af landi betur. Eins og staðan er núna taka þeir námslán sem þurfa á því að halda og þeir sem ekki þurfa á námslánum að halda gera það ekki. Þarna virðist vera búið til ákveðið kerfi þar sem er bæði styrkur sem námsmenn geta fengið ef þeir klára ákveðið margar einingar á önn og svo lán. Ég hugsa að það sé möguleiki á því, eins og hv. þingmaður reifaði áðan, að stúdentar sem eiga heima á höfuðborgarsvæðinu taki síður lán. Hvaða áhrif telur hv. þingmaður að það muni hafa fyrir stúdenta sem koma utan af landi, fyrir þá sem þurfa að flytjast búferlum til þess að geta stundað nám? Nú er t.d. enginn stór háskólakjarni á Vestfjörðum eða á Vesturlandi, reyndar Bifröst en ekki á Vestfjörðum sjálfum. Það er spurning hvað sé hægt að gera til þess að komast til móts við námsmenn sem þurfa að flytjast búferlum til að geta stundað nám, því að ef þetta á að vera félagslegur jöfnunarsjóður eins og hæstv. ráðherra vill meina þarf náttúrlega að taka tillit til þess, ekki satt?