145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[19:18]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar. Núna langar mig að snúa mér að öðru. Það eru mögulegar styrkveitingar sem EES-ríkisborgarar munu eiga rétt á. Í Danmörku hefur þetta valdið svolitlu vandamáli. Ég er hérna með skýrslu frá uddannelses- og forskningsministeriet, eða mennta- og tryggingamálaráðuneytinu. Þar kemur bersýnilega í ljós að eftir að dómur féll í Evrópudómstólnum þess efnis að EES-ríkisborgarar ættu allir rétt á sömu ívilnunum, skattaívilnunum, ef þeir ynnu lágmarksvinnu upp á 10–12 tíma á viku, fjölgaði nemendum um 43% á árunum 2011–2015. Í skýrslunni segir líka að nemendur haldist áfram í Danmörku einfaldlega út af tekjumöguleikum. Það virðist því vera smásamspil milli tekjumöguleika og þess að vilja búa einhvers staðar. Þetta rímar náttúrlega svolítið við það sem við vorum að ræða áðan um landsbyggðina.

Það sem mig langar að velta fyrir mér með hv. þingmanni er það hvort Ísland þurfi að íhuga það hvort beinir styrkir séu til þess fallnir að gera Ísland meira aðlaðandi fyrir ríkisborgara Evrópska efnahagssvæðisins og hvort og hvernig ríkissjóður eigi að standa straum af því. Við sjáum að útgjöld danska ríkissjóðsins stóraukast þegar kemur að styrkjum, þótt styrkirnir í Danmörku séu töluvert ríflegri en hérna. Þá er spurningin hvort þetta sé nóg til þess að fólk vilji koma hingað til lands og hvort ríkissjóður muni mögulega geta staðið undir því.