145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[19:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að velta þessu fyrir sér. Við erum aðilar að EES og eigum auðvitað að undirgangast það regluverk sem þar er. Reynsla er komin á þetta, eins og hv. þingmaður nefnir, annars staðar á Norðurlöndunum. Ég óttast ekki endilega að það komi hingað bylgja af fólki sem kemur fyrst og fremst út af þessum styrk og miklum tekjumöguleikum. Ég óttast ekki að það verði flóðbylgja í því sambandi. En mér finnst alveg eðlilegt að taka þennan möguleika inn í myndina varðandi kostnaðargreiningu á málinu sem slíku, þessu frumvarpi. Það á að sjálfsögðu að hafa alla varíanta þar inni.

Ég vil í lok máls míns nefna eitt sem ég nefndi ekki fyrr í ræðu minni og það er varðandi möguleika á að breyta námsláni í styrk, eins og hefur verið gert í Norður-Noregi. Mér finnst alveg vanta þá umræðu að skoða þann möguleika og hvata til þess að gera slíkt. Það ætti að vera alvöruhvati til þess að hvetja menntafólk úti um land til að fara til starfa og hægt að útfæra það hliðstætt því sem gert er í Norður-Noregi, þannig að möguleiki sé á að hluti af námsláninu falli niður og verði styrkur. Það ætti frekar að gera það en að smyrja þessum 65 þús. kr. á alla burt séð frá því hvort þörf er þar til staðar eða ekki. Það er hægt að nýta þá fjármuni miklu betur á annan hátt, að ég tel.