145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[20:32]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa framsögu. Mig langar til að spyrja, þar sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir var sjálf menntamálaráðherra á árum áður, á síðasta kjörtímabili, að mér finnst svolítill munur á þeirri áherslu sem menntamálaráðherra kemur með núna í samanburði við það sem hún kom með á sínum tíma, þá sérstaklega viðhorf stúdentahreyfinganna núna og fyrir fjórum árum. Mig langar til að fá að vita frá hv. þingmanni hvort þessi munur sé í raun og veru, hvort mig misminni eða hvort hv. þingmaður getur staðfest þennan mun, þessa breytingu á viðhorfi stúdentahreyfinganna, að hérna virðast stúdentahreyfingarnar augljóslega styðja eitthvert kerfi sem ívilnar hvað mest fólki sem býr í heimahúsum og hefur ekki þörf á að taka lán, býr við þannig félagslegar aðstæður að það þarf ekki að taka lán. Er það eitthvað sem var lagt upp með í menntamálaráðuneytinu fyrir fjórum, fimm árum eða er þetta eitthvað nýtt? Er þetta ný hugsun?

Núna vil ég bara forvitnast um forsöguna, hvort þetta eigi einhvern lengri aðdraganda en bara þessi nefnd sem var sett á fót í mennta- og menningarmálaráðuneytinu nú fyrir jól.