145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[20:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nefna til viðbótar við svar mitt áðan, af því að hv. þingmaður nefndi ólík viðbrögð, að það var líka hluti af þeirri vinnu sem fór fram á síðasta kjörtímabili að eiga samráð við launþega. Við sjáum núna að fulltrúar launþegahreyfingarinnar, t.d. fulltrúar BHM, hafa lýst miklum efasemdum um þá leið sem lögð er til vegna breytinga á endurgreiðslum. Þarna koma auðvitað fram ólík sjónarmið, við fundum það líka á sínum tíma þegar þessi mál voru til skoðunar að stúdentar voru með önnur áherslumál en þeir sem eru síðan á þeim stað í lífinu að vera að greiða námslán til baka. Þetta eru allt sjónarmið sem þarf að hafa í huga.

Ég hef sagt í ræðu minni og andsvörum í dag að ég telji mikla þörf á því að greina áhrif þessara breytinga vel, greina áhrif breytinga á ólíka tekjuhópa, námsgreinar, áhrif breytinga á kynin, þ.e. karla og konur, barnafólk og ekki barnafólk. Allt þetta finnst mér vera upplýsingar sem þurfa að liggja fyrir áður en Alþingi getur tekið jafn stóra ákvörðun. Ætli ég sé ekki á svipuðum stað og félagar mínir sem þá voru í stjórnarandstöðu en eru nú í ríkisstjórninni, voru það á sínum tíma þó að þá væri umtalsvert lengri tími til stefnu, að mér er það mjög til efs að það náist að klára þetta stóra mál á þessu þingi, ekki vegna þess að það séu ekki allir reiðubúnir að vinna hér og leggja sitt af mörkum til að vinna á þinginu, heldur að við hljótum að kalla eftir því að svona upplýsingar liggi fyrir. Annars sitjum við bara uppi með þá stöðu að þingmenn þurfa að vera að kalla hér eftir upplýsingum eftir lagasetningu og fá hreinlega engin svör. Ég hef nefnt sem dæmi að skýrslan sem beðið var um 15. október í fyrra er enn ekki komin, herra forseti, um áhrif leiðréttingarinnar margfrægu á ólíka tekjuhópa. Það gengur ekki að þingið sé að fá (Forseti hringir.) upplýsingar löngu eftir lagasetningu eða jafnvel fá þær bara alls ekki.