145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[20:40]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar rétt aðeins að blanda mér í 1. umr. um þetta mál, frumvarp til laga um námslán og námsstyrki. Lánasjóður íslenskra námsmanna er ein mikilvægasta menntastofnun landsins. Hlutverk LÍN er að gera öllum óháð efnahag kleift að stunda nám. Það er óþarfi að fjölyrða um mikilvægi menntunar fyrir einstaklingana og samfélagið.

Það eru nokkur atriði sem mig langar til að drepa á. Ég og við í Samfylkingunni erum sammála því prinsippi að það sé gott að taka upp námsstyrki samhliða námslánum. Nú í dag erum við að greiða niður námslán en það er með miklu ógagnsærri hætti en þetta frumvarp kveður á um. Það er líka mikilvægt að gera fólki kleift að hefja nám eingöngu með námsstyrkjunum og það þurfi ekki að taka lán fyrstu árin í framhaldsnámi, þó að það sé líka mikilvægt að fólk hafi tök á því, en þetta gerir fólki kannski kleift að draga úr lántöku í grunnnámi á háskólastigi til að mynda.

En svo fer maður að lesa um kjörin og þingmaður Samfylkingarinnar, Katrín Júlíusdóttir, hefur gert nokkuð góða útreikninga á því að greiðslubyrðin á lánunum er fljót að éta upp ávinninginn af styrknum þannig að fyrir flesta yrði niðurstaðan sú að þetta yrði óhagstæðara en það lánakerfi sem við búum við í dag í námslánunum. Mig langaði bara til þess að vekja athygli á þeirri staðreynd sem gerir erfitt að innleiða þetta. Í Svíþjóð er sambærilegt kerfi en það er aðeins annað upp á teningnum þar. Fram kemur í frumvarpinu að námslánin, það sem fólk getur fengið að láni umfram styrkinn, eru verðtryggð. Það er nú sérstakt að Framsóknarflokkurinn standi að því að búa til nýtt námslánakerfi sem sé tengt verðtryggingunni því að það er markmið þess flokks að afnema hana, ágætt að benda á það. En lánin eru sem sagt verðtryggð, með 2,5% vöxtum auk álags vegna væntra affalla. Ef við segjum að verðbólga sé á markmiði, kannski um 2,5%, vextirnir 2,5% og álag vegna væntra affalla — er það 0,5%, er það 1%, er það 0,2%? Ég veit það ekki. Nafnvextirnir yrðu þá á bilinu 5,2–6%. Þegar farið er að skoða námslánakerfið í Svíþjóð þá taka vextir af námslánum breytingum ár frá ári og í ár, árið 2016, verða þeir 0,6%, óverðtryggðir. Þetta er gígantískur munur og endurspeglar náttúrlega vanda okkar út af gjaldmiðlinum, íslensku krónunni, sem og óstöðugleika í efnahagsstjórn um áratugaskeið. Það eru engin ný sannindi að við erum með óhagfelld lánakjör og á Íslendinga eru lagðar þungar byrðar vegna vaxtaoksins sem fylgir íslensku krónunni. Mér fannst bara rétt að benda á þetta. Við erum ekki að búa til neitt norrænt kerfi hérna af því að við erum með vaxtakjör sem eru algjörlega ósambærileg. Þetta verður náttúrlega að skoðast mjög vel í allsherjar- og menntamálanefnd. Það þarf að skoða þau ríki sem eru með svipað fyrirkomulag og vaxtakjörin þar. Það er auðvitað grundvöllurinn að kostnaði við lántöku, þ.e. vaxtakjörin.

Síðan vil ég gera athugasemdir við það að ekki er verið að setja inn nýja fjármuni, það á ekki að auka stuðninginn, þetta á að vera núllsumma. Mér sýnist það þýða að komandi kynslóðir eigi að taka þátt í niðurgreiðslunni á eldri lánum þannig að aldamótakynslóðin sem fer fljótlega í háskóla mun greiða skuldir 68-kynslóðarinnar og okkar sem yngri erum. Hún á að taka þátt í því að borga þann kostnað. Það er óeðlilegt að veita þeirri kynslóð þá vöggugjöf með nýju námslánakerfi, það er ansi súrt snuð sem við stingum upp í hana. Þetta gengur náttúrlega ekki og er eitt af því sem þarf að skoða.

Ég ætla ekki að velta fyrir mér efnislegu innihaldi að öðru leyti, reyndar kemur hér fram að nám sem er skipulagt með vinnu sé ekki aðstoðarhæft hjá sjóðnum. Það er ekkert óeðlilegt að fólk sem er í vinnu og vill fara í nám sem er skipulagt með vinnu sé bara á sínum launum en þá er litið fram hjá því að yngra fólk á Íslandi býr við mikið atvinnuóöryggi og er í mjög verkefnatengdri vinnu og með mjög óstöðugar tekjur. Svo má segja að það sé mikið dulið atvinnuleysi á meðal háskólamenntaðs fólks, sérstaklega í ákveðnum greinum. Fólk sem er ekki í fastri vinnu er ekki með fastar tekjur. Það er þó nokkuð algengt af því að atvinnuóöryggi er viðvarandi vandi. Það eitt að nám sé skipulagt samhliða vinnu þarf ekki að þýða að sá sem fer í það sé með fastar mánaðartekjur. Það eru aðstæður nemenda sem hljóta að eiga að skipta máli, ekki skipulag námsins út frá meintum nemendum.

Svo vil ég minna á að ég lagði fram frumvarp um það að námslán féllu niður við 67 ára aldur. Námslán eru til þess gerð að auka aflahæfi einstaklinga og fólk sem er að fara út af vinnumarkaði, hefur haft tiltölulega lágar tekjur miðað við fjárfestingu í námi og ekki náð að greiða niður lán sín á starfstímanum eða starfsævinni og er þar af leiðandi líka með tiltölulega lágar lífeyristekjur — það sjá allir að það að vera ellilífeyrisþegi og samhliða að greiða af námslánum fer bara mjög illa saman og er ekki eðlilegt.

Svo er ábyrgðarmannakerfið sem hv. þm. Árni Páll Árnason ræddi hér áðan, lagt er til í frumvarpinu að ábyrgðir falli niður við 67 ára aldur. Svo verðum við auðvitað að breyta því að þær erfist ekki. Það eru vonbrigði að samhliða framlagningu þessa frumvarps sé ekki verið að taka á þeim augljósu göllum á núverandi kerfi.

Ég sit ekki í allsherjar- og menntamálanefnd en ég vona að nefndin skoði þessar athugasemdir mínar varðandi vaxtakjörin, hvað sé til ráða með námslánakerfið þegar við erum með svona miklu óhagfelldari vaxtakjör en t.d. Svíþjóð, hvaða fjármunum beri að bæta inn í þetta þannig að aldamótakynslóðin þurfi ekki að bera útgjöld vegna okkar hinna sem eldri eru inn í framtíðina í nýju kerfi og hvort ekki sé eðlilegt að fara í breytingar á núverandi kerfi samhliða þannig að við sem höfum verið í því og þeir sem eru í því, að felld verði niður námslán þeirra við 67 ára aldur. Og að ábyrgðarmannakerfið verði endurskoðað og eins nám sem skipulagt er samhliða vinnu, það þarf að skoða þetta sérstaklega út frá því að þeir sem fara í það eru ekki allir í fastri vinnu.

Svo óska ég nefndinni velfarnaðar við vinnu við frumvarpið og endurtek að ég er í prinsippinu sammála hugmyndinni sem liggur að baki, en ég tel hana ekki ganga upp í þessu frumvarpi og skapa lakari kjör fyrir námsmenn til framtíðar en núverandi kerfi gerir og þá er betur heima setið en af stað farið.