145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[20:53]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir að mjög mikilvægt er að slíkar greiningar fari fram. Við vitum að fjöldinn allur af fólki er með langt háskólanám að baki, ekki síst konur sem fá laun sem mundu á engan hátt standa undir þessum lánum. Það má kannski segja að umræða um þetta frumvarp muni draga glögglega fram í dagsljósið hversu léleg fjárfesting það getur verið að mennta sig á Íslandi. Það er kannski ágætt að við horfumst í augu við það, að við förum að móta atvinnustefnu sem lýtur að verðmætari störfum og að við förum að taka þau störf sem eru oft kölluð hefðbundin kvennastörf, eins og störf hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, sem reyndar eru ekki með háskólamenntun, en kennaranám, leikskólakennaranám, og fara að launa þau störf í samræmi við þá fjárfestingu sem liggur að baki og þau verðmæti sem slík störf skapa. Gera þarf miklu betri greiningar á áhrifum þessa fyrir ólíka hópa. Það þarf að meta hvaða áhrif þetta muni hafa á vilja fólks til að mennta sig í greinum eins og kennslu og t.d. hjúkrunarfræði þar sem fyrirséð er að mikill skortur á mannafla verður á næstu árum.

Ég tek því undir með þingmanninum. Það þarf að fara í miklu nákvæmari tekjugreiningu og hún þarf svo sannarlega að taka tillit til kynferðis og launamunar kynjanna. Við viljum útrýma honum, hann er veruleiki. Á meðan ekki er búið að útrýma honum verðum við að tryggja að við séum ekki að leggja enn þyngri klafa á konur með námslánakerfinu.