145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[21:00]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú er það svo að hv. þingmaður er formaður velferðarnefndar. Ég hef verið sífellt meira hugsi yfir því þegar við erum hér að taka ákvarðanir sem varða með afgerandi hætti stór kerfi sem lúta í raun og veru að félagslegum aðstæðum fólks en fara aldrei til umfjöllunar í velferðarnefnd. Hér er um að ræða mjög stórt kerfi sem varðar kjör stórra hópa af ungu fólki og er afgerandi þáttur í því hvernig fólk velur eða ákvarðar búsetu. Þá er það að bera saman Ísland og löndin í kringum okkur að minnsta kosti.

Hér er um að ræða tillögu um breytingu á jöfnuði í samfélagi sem lýtur að mjög stórum hópi fólks. Í andsvari á undan var sérstaklega verið að ræða um áhrifin af endurgreiðslunum og þá staðreynd að við erum rétt nýbúin að sjá frumvarp frá ríkisstjórninni um séreignarlífeyrissparnað og það er nýbúið í rauninni með aðgerðum ríkisstjórnarinnar að fella nánast vaxtabótakerfið niður, þá er maður mjög hugsi yfir því að hér sé sjóður með félagslegt jöfnunarhlutverk við hliðina á ýmsum öðrum aðgerðum að valda mjög drastískum breytingum á kjörum ungs fólks, án þess að málin komi nokkurn tímann til umfjöllunar í velferðarnefnd sem er nefndin sem á með sönnu að fjalla um jöfnuð og ójöfnuð í samfélaginu. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sjái (Forseti hringir.) flöt á aðkomu velferðarnefndar (Forseti hringir.) í umfjöllun um þetta mál.