145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[21:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Lánasjóður íslenskra námsmanna er sannarlega félagslegt jöfnunartæki og hefur það hlutverk að tryggja öllum aðgengi að sérmenntun og háskólamenntun óháð efnahag. Það er margt sem bendir til þess að því markmiði sé verulega ógnað með frumvarpinu. Svo ætla ég að segja að ég tortryggi hreinlega þessa ríkisstjórn. Hún hefur lagt sig fram um aukna einkavæðingu og virðist þykja almannaþjónustan best komin í höndum einkaaðila en ekki ríkisins. Nú er kominn upp einkarekinn lánasjóður, námslánasjóður. Það þarf líka að skoða þetta í því samhengi. Erum við að ganga í þá átt að markaðsvæða þetta félagslega jöfnunartæki? Við í Samfylkingunni erum ósammála því. Við teljum að Lánasjóður íslenskra námsmanna eigi áfram að vera það félagslega jöfnunartæki sem hann er. Ég held að þeir sem vilja standa vörð um þau markmið eigi að skoða það sérstaklega í nefndinni eða hvort eigi smám saman bara að grafa undan þeirri stofnun og setja þetta í hendurnar á einkareknum fjármálastofnunum. Ég óska eftir því við hv. þingmann sem þar situr.