145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[21:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að núverandi löggjöf um námslán sé að mörgu leyti ein af merkari félagsmálalöggjöfum Íslands og að lögin nr. 72/1982 hafi þá verið mjög merkilegur áfangi í því að byggja upp jafnréttissamfélag á Íslandi og í framhaldi af uppbyggingu þessa kerfis áratugina á undan sem leystu af hólmi gömlu námsstyrkjakerfin og frá árdögum Háskóla Íslands og lánasjóðnum til námsmanna erlendis sem var til um tíma. Þetta rann að lokum saman í eitt samfellt kerfi og var, má segja, fullmótað í núverandi mynd með lögunum 1982. Útgangspunktur þeirra laga er að tryggja jafnrétti til náms. Þá er komið inn að taka tillit til aðstæðna námsmanna hvað varðar möguleika til tekjuöflunar, fjölskylduaðstæðna og kostnaðar, hvort þeir búi í heimahúsum eða þurfi að sjá sér sjálfir fyrir húsnæði o.s.frv. Á hinn endann er þá komin inn tekjutengd afborgun og reyndar nokkru fyrr, á sjöunda áratugnum hygg ég að það hafi byrjað, og menn fikra sig yfir í kerfi þar sem um er að ræða annars vegar fasta afborgun af lánum og hins vegar tekjutengda viðbót sem þýðir eðli málsins samkvæmt að menn greiða lánin þeim mun hraðar til baka sem tekjur þeirra eru hærri.

Þetta kerfi er hugmyndafræðilega mjög gott vegna þess að það hefur réttan útgangspunkt, að tryggja jafnrétti til náms, að jafna aðstæður, og það dreifir líka með sanngjörnum hætti greiðslubyrðinni þegar náminu er lokið og menn hefja endurgreiðslur. Það tekur tillit til mjög margra hluta í senn, þar á meðal þess að auka möguleika manna til að endurgreiða að fullu mikinn útlagðan námskostnað. Þótt menn hafi fengið lánað fyrir honum með stuðningi ríkisins er auðvitað mjög mismunandi hver laun þeirra verða á styttri starfsævi en ella væri vegna þess að þeir hafa eytt þremur, fimm, átta árum ævi sinnar í nám og eru sem því nemur að meðaltali skemur á vinnumarkaði en aðrir.

Ég þekki ekki það vandamál að námsmenn taki í stórum stíl meiri lán en þeir þurfa. Námsmenn eru almennt nokkuð vel gefið fólk og þeir vita að þeir eru að binda sér skuldbindingar. Mér finnst stundum svífa sá andi yfir vötnunum að hér sé verið að rétta mönnum alveg sérstök gæði, að þeir skuli fá að taka lán fyrir eigin framfærslu meðan þeir eru að mennta sig, ekki bara í eigin þágu heldur samfélagsins alls.

Með þessu er ég ekki að segja að fyrirkomulagið eins og það hefur verið með breytingum frá 1992, sem má deila um hvort allar hafi verið til bóta, eigi að standa að öllu leyti óbreytt. Að sjálfsögðu þarf löggjöf af þessu leyti að þróast í takt við breyttar samfélagsaðstæður og viðhorf. Ég hef því miður ekki góða tilfinningu fyrir því að hér sé farið í rétta átt. Að sjálfsögðu kemur vel til greina að breyta fyrirkomulagi þess opinbera stuðnings sem inn í námslánakerfið fer í formi þess að það þarf að leggja árlega hátt í helming af kostnaði sjóðsins inn sem meðlög, að breyta því eitthvað frá núverandi fyrirkomulagi. Ef menn ætla ekkert nýtt fé að setja inn í kerfið á ég svolítið erfitt með að skilja málflutninginn um að allir græði samt. Það er yfirleitt þannig að einhver annar borgar ef ekki er beinlínis bætt við þann stuðning sem viðkomandi fyrirkomulag felur í sér.

Hér á að færa allan stuðninginn frá hinu opinbera yfir í námsstyrki sem allir hafa aðgang að óháð aðstæðum. Væntanlega nýta sér hann allir. Hver vill ekki fá 65.000-kall á mánuði frá ríkinu? Í staðinn þyngjast mjög endurgreiðslur á lánum þeirra sem verða að taka lán og dugar ekki þessi 65.000-kall mjög verulega. Svo geta menn farið í endalausa meðaltalsútreikninga og sagt að að meðaltali komi þetta svona og hinsegin út.

En horfum þá til grundvallarins sem þetta á að snúast um, að tryggja mönnum jafnrétti til náms. Horfum til hans og veltum fyrir okkur hvað tapast líka með hinu fyrirkomulaginu. Menn segja að það sé tiltölulega fámennur hópur námsmanna sem fer í mjög langt eða jafnvel mjög dýrt nám og borgar ekki nema brot af því til baka. Það er út af fyrir sig rétt. En er þar með sagt að við viljum bara slá það af? Er það alveg sjálfgefið? Er það kannski þannig að upp að vissu marki þurfum við að geta haft þann möguleika í kerfinu að menn geti farið í nokkuð langt og jafnvel dýrt nám og séu studdir til þess í góðum háskólum þar sem um mjög sérhæft nám er að ræða og þar sem við þurfum á vel menntuðu fagfólki að halda en eigum kannski ekki kost á að bjóða upp á það nám heima fyrir?

Ég verð að segja alveg eins og er að ef menn ætla að breyta að einhverju leyti formi þessa framlags ríkisins yfir í svona beinar greiðslur á náttúrlega að byrja á því að spyrja: Hvernig á þá að gera það? Það er út af fyrir sig alveg rétt. Það hefur almennt verið velvilji til að skoðað yrði að þessum stuðningi yrði að einhverju leyti breytt úr afskriftum lána og vaxtaniðurgreiðslum yfir í bein framlög. En hverjir eiga að fá þau? Allir jafnt? Og sökkva þannig alveg tilliti til aðstæðna manna, hvort sem varðar möguleika til tekjuöflunar eða félagslegra aðstæðna barna o.s.frv. Nei, þá eiga þeir sem eru í þeim aðstæðum að taka bara lán fyrir því, en allir geta fengið námsstyrkina jafnt. Af hverju er þessu ekki snúið við? Af hverju byrjum við ekki á styrkjum sem ganga til einstæðra foreldra? Af hverju byrjum við ekki á styrkjum til námsmanna af landsbyggðinni og annarra sem ekki geta nýtt sér það að búa heima hjá foreldrum sínum á meðan þeir eru í námi? Af hverju byrjum við ekki á því að taka til hliðar styrki til að lækka greiðslubyrði námslána hjá þeim sem t.d. fara út á land með sína menntun og starfa í fimm ár eða meira? Við getum skilgreint þau svæði. Það geta verið svæðin sem njóta hæstu flutningsjöfnunarstyrkja samkvæmt skilgreiningu Byggðastofnunar, að háskólamenntaður maður sem fer vestur á firði eða á norðausturhornið og starfar þar í fimm ár öðlist rétt til þess að hluta af höfuðstól lánsins hjá honum sé breytt í styrk.

Í fyrsta lagi finnst mér líka aðferðin röng, að breyta þessu samtímis í námsstyrki. Þá væri strax mun skárra að breyta hluta höfuðstóls lánsins þegar námi er lokið og áður en afborganir af því hefjast í styrki, mun gáfulegri aðferð af ástæðum sem ég held að ég þurfi ekki að útskýra. Allir hljóta að sjá í hendi sér að það getur sneitt hjá ýmsum vandamálum, svo sem þeim að þegar eitthvað bjátar á í námi eftir að menn hafa fengið heilmikla námsstyrki og niðurstaðan verður ekki sú sem menn almennt ætluðust til.

Í reynd hefði ég líka viljað nota annað hugtak en styrki. Hvað með námslaun? Hvað með að breyta hugsuninni í þessu og segja að að einhverju leyti ætlum við að greiða öllum sem fara í nám tiltekin laun á þeim tíma? Það hugnast mér betur. Best væri auðvitað að við notuðum eingöngu félagslegt launahugtak en hættum að tala um bætur alls staðar. Af hverju fá menn ekki samfélagslaun ef þeir hafa enga starfsorku og eru öryrkjar? Af hverju höfum við ekki þau laun þannig að menn geti strax byrjað að borga í lífeyrissjóð af þeim launum meðan þeir eru í námi og haft sömu stöðu við starfslok óháð því hvort þeir voru öryrkjar eða námsmenn hluta ævinnar eða alla ævina í fyrra tilvikinu? Við mundum leysa mörg vandamál með því.

Þá að kjörunum því að ekki er ókeypis að búa út svokallaða námsstyrki handa öllum óháð aðstæðum manna og þörf manna fyrir þá. Ég sé ósköp lítinn sósíalismus í því, ósköp litla jafnaðarstefnu. Þá kemur að böggli skammrifs. Það á að setja 3% vexti á námslán. Hvar eru námsmenn í dag? Hvernig var þetta þegar í fyrsta lagi námslán voru verðtryggð? Það hrikti í þá og þegar settir voru 1% vextir á námslán logaði allt. Nú heyrist mér að sumir námsmenn fagni því að setja eigi 3% vexti á námslán. Ég botna bara ekkert í þessu. Kem ég þá að því síðasta sem er að það á að henda út allri viðmiðun við tekjur eftir að endurgreiðslur lána hefjast. Aðstöðujöfnunarhugsunin og hugsunin á hinum endanum þegar menn fara að borga er þurrkuð út báðum megin. Þetta er flatneskjufrjálshyggjufrumvarp, ekkert annað. Ég nenni ekki að tala neitt annað en tæpitungulaust um þetta.

Ég var í Háskóla Íslands einmitt þegar lögin nr. 72/1982 voru sett. Ég man vel eftir því sem gekk á og slagnum sem námsmenn tóku fyrir ákveðnum prinsippum þar og höfðu sem betur fer að mestu leyti sigur. Þá var framfærslan hækkuð í 100% úr 85% sem hún hafði verið í. Þá loksins náðist það í gegn að það skyldi jafna aðstöðu manna að þessu leyti að fullu og að menn skyldu geta lifað sæmilega sómasamlegu lífi eins og aðrir þótt þeir væru að ráðstafa tíma sínum í nám en færu ekki strax út á vinnumarkaðinn. Fyrir þessu var barist og það náðist í höfn. Hins vegar hrikti í, svo mikið man ég og veit.

Og nú er ekki verið að afnema verðtrygginguna. Nei, hún er ekki aldeilis að fara. Hvar er Framsókn? Þetta er auðvitað verðtryggt í hólf og gólf með 3% vöxtum eða jafnvel meira ef lánskjör ríkisins yrðu lakari. Jæja, ríkið tæki það kannski alltaf á sig, gott og vel, en þetta eru engir smáraunvextir, verð ég að segja. Ég held þó að það lakasta af þessu öllu sé að afnema tekjutengdu endurgreiðsluna. Hvers vegna má það ekki vera svona áfram óháð hinu? Það er algerlega sjálfstætt mál. Menn geta algerlega farið með hitt eins og þeir vilja, þ.e. fært einhvern hluta stuðningsins inn í styrki sem auðvitað ætti að útfæra allt öðruvísi eins og ég tel mig hafa fært rök fyrir, að nota þá að hluta til sem aðstöðujöfnunartæki og menn gætu nákvæmlega eins stillt fjárhagsdæmi sjóðsins af með að hluta til tekjutengdum afborgunum. Það er bara nýtt reikningsdæmi hvernig það þarf að stilla af til að koma út á núlli gagnvart útgjöldunum vegna námsstyrkjanna. Það er ekkert sem segir að endurgreiðslurnar þurfi að vera flatar og óháðar tekjum. Það hefur að mínu mati í för með sér að það dregur enn úr því að fólk treysti sér í langt nám vitandi að það kann að lenda frekar neðarlega í launaskalanum að því loknu. Við þurfum á slíku fólki að halda. Við eigum að hvetja til þess því að nógur er nú hvatinn á tímum efnishyggjunnar í hina áttina, óháð því hvernig endurgreiðslureglurnar eru. Ég held að þetta sé alveg ótrúleg skammsýni gagnvart því að við getum áfram hvatt ungt fólk til dáða sem er ekki bara með peningaglýjuna í augunum og vill drífa sig á færibandinu í gegnum framhaldsskóla og háskóla eins og hæstv. menntamálaráðherra vill, fara á færibandi á tvöföldum hraða, til að reyna að komast í sem allra best borguð störf. Við þurfum nefnilega fólk sem fer inn í nám af öðrum ástæðum, af því að það hefur hugsjón fyrir því og brennur fyrir því og það langar til að mennta sig á ákveðnu sviði eða það vill leggja sitt af mörkum á ákveðnu sviði, við vísindarannsóknir og fræðistörf, við fagmennsku í umönnunarstörfum og öðru slíku. Þetta fólk veit iðulega að það er ekki endilega ávísun á há laun að gerast fræðagráni einhvers staðar í hinu akademíska samfélagi eða annað í þeim dúr.

Ég held að með þessum tvöföldu hvötum til þess í raun og veru að fæla fólk frá svona námi séum við sérstaklega að fara í algerlega öfuga átt.

Kostirnir við núverandi kerfi, þó að það hafi vissulega líka galla, eru margir, m.a. og ekki síst þeir að menn hafa getað látið það eftir sér að fara í langt nám, fara í masters- og doktorsnám erlendis og jafnvel í suma af bestu skólum heimsins og borgað þar skólagjöld. Við höfum sótt fólk úr ýmsum áttum út á þetta kerfi okkar af því að það hefur staðið mönnum opið austan hafs og vestan og við höfum dregið á það fjölþættan menningar- og menntunarlegan bakgrunn margra stétta í landinu. Oft er arkitektúr nefndur í því sambandi af því að afurðir hans eru svo sýnilegar fyrir augum manna en það á við um mjög margar stéttir. Ég get tekið raunvísindin, jarðfræðina ef því væri að skipta, þaðan sem fólk hefur komið heim úr námi úr öllum áttum, austan hafs og vestan. Þannig þarf það að vera.

Ég er alveg sannfærður og trúi því ekki að til standi að afgreiða þetta mál enda er ekkert lítið undir. Varla dettur (Forseti hringir.) nokkrum manni í hug, herra forseti, og alls ekki okkur tveimur að til standi að fara að taka svona stór skref í stóru máli af þessu tagi á örfáum dögum þannig að ég fagna því að menn ræði þetta og skoði en leyfi því svo bara að hvíla.