145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[21:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki náð að skoða alla útreikningana sem hv. þingmaður vitnar til, ég veit að hún er orðin býsna vel lesin í pappírunum í kringum þetta mál, en ég geri ráð fyrir að hér séum við að tala um kostnaðinn að meðaltali fyrir þá sem hafa fengið lánað fyrir skólagjöldum, 3,7 milljónir, og síðan að 1 milljón greiðist til baka í núverandi kerfi. Svo verður þetta með öðrum hætti í hinu kerfinu.

Skólagjöldin, já, tilheyra væntanlega fyrst og fremst þeim sem fara í lengra nám, meistara- og doktorsnám, og eru þá gjarnan að sækja sér framhaldsmenntun á sviðum sem ekki eru í boði hér heima eða góð og gild rök standa a.m.k. fyrir að sækja sér erlendis. Ég lagði einmitt áherslu á það í minni ræðu að það er mjög mikilvægt að viðhalda þeim eiginleikum kerfisins að það sé hægt. Ég held að við þurfum á því að halda. Það er eitt af því sem var skoðað. Ég þóttist reyndar heyra hæstv. menntamálaráðherra beinlínis viðurkenna hér í dag að það væru tilteknir þættir, t.d. í sambandi við doktorsnám, sem ástæða gæti verið til að fara betur ofan í saumana á og skoða hvernig ætti að koma því við. Þarna eru líka tímamörk og þök sem þarf að átta sig á og greina hvort ganga að öllu leyti upp gagnvart því.

Þetta er u.þ.b. það sem ég hef að segja um þetta og mín viðhorf sem snúa að þessu. Ég held að það eigi að reyna að varðveita sveigjanleikann í kerfinu. Þessir möguleikar þurfa að standa opnir, það er alveg augljóst mál. Við þurfum á því að halda af svo mörgum ástæðum, þeirri endurnýjun og þeirri fjölbreytni og vera með í þeirri þróun sem er í gangi hér og þar. Við eigum að passa upp á þetta.