145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[21:29]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að Lánasjóður íslenskra námsmanna viðhaldi þeirri hugsjón sem var lagt upp með til að byrja með um að þetta væri félagslegur jöfnunarsjóður til að stuðla að tækifærum fólks til að stunda nám við hæfi sem það hafði áhuga á og vildi stunda. Þess vegna skýtur skökku við að í fylgiskjalinu sem hefur verið unnið fyrir ráðuneytið er ýmist talað um að í gömlu kerfi og nýju kerfi virðist ekki vera heil mynd í þessu. Stundum er sagt að svo virðist sem fólk muni njóta ágóða af því að taka lán í nýja kerfinu en stundum í gamla kerfinu.

Núna er þetta svolítið leikur að tölum, sér í lagi þar sem við erum að breyta í styrk ákveðnum vaxtamun sem hefur í raun verið styrkur hingað til af því að fólk getur aldrei klárað að borga af lánunum sínum. Ég velti fyrir mér hvort lánasjóðurinn muni ekki koma út í plús þannig lagað séð þar sem hér kemur fram að vaxtamunurinn í gamla kerfinu sé í raun og veru neikvæður en hann er allt í einu orðinn jákvæður í því nýja kerfi sem við erum að ræða.

Þá spyr ég: Hefur það einhver áhrif á þau félagslegu gildi sem Lánasjóður íslenskra námsmanna á að standa fyrir þegar vaxtamunurinn er jákvæður? Erum við að tala um þann félagslega jöfnunarsjóð sem lagt var upp með ef námsmaðurinn borgar í raun til baka þann styrk sem hann á inni í formi vaxta?