145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[21:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil mjög vel að mörgum námsmönnum sem sjá bara að það er allt í einu að koma frumvarp þar sem þeir eiga kost á því að fá 65 þús. kr. á mánuði í námsstyrk og það er almennt í boði finnist það spennandi. Hver skilur það ekki? Ég held að við getum öll haft fullan skilning á því. Á þessu æviskeiði eru menn kannski ekkert svo mikið að velta fyrir sér því sem síðan verður eftir 10 ár eða 20 ár. Ég óttast því miður að ansi margir muni sjá þegar frá líður að það var býsna dýru verði keypt að fá þetta.

Okkar hlutverk hér er í fyrsta lagi að horfa á grundvallarprinsippin í málinu og hvað þarf að standa vörð um; jafnrétti til náms og félagslegan jöfnuð í þeim efnum og huga sérstaklega að þeim sem þurfa á góðum stuðningi að halda. Við eigum fyrst og fremst, eða ég a.m.k. skoða þetta fyrst og fremst út frá þessari spurningu: Hvar eru þeir hópar námsmanna sem munu bera skarðan hlut frá borði og hverjir þurfa sérstaklega á stuðningi að halda? Það eru þeir sem eru með erfiðustu aðstæðurnar, erfiðustu félagslegu aðstæðurnar, það eru einstæðar mæður, það eru þeir sem hafa takmarkaða möguleika til tekjuöflunar af heilsufars- eða fjölskylduástæðum. Það eru þeir sem eiga þess ekki kost að sækja nám sitt heiman frá sér, frá foreldrum sínum eða þar sem þeir búa. Ég ætla að standa vörð um þá jafnvel þótt það þýði að drjúgur hluti almennra námsmanna verði ekkert kátur með það sem ég segi. Það skiptir mig engu máli, ekki nokkru. Ég ætla að horfa á það sem á að vera aðalsmerki þessa kerfis, að tryggja jafnrétti til náms á Íslandi og að það sé félagslega sanngjarnt kerfi sem dragi úr aðstöðumun í samfélaginu og tryggi eftir því sem nokkur kostur (Forseti hringir.) er öllum sem í hlut eiga jafna möguleika og jöfn tækifæri að þessu afar (Forseti hringir.) mikilvæga sviði lífsins sem það er að fá að mennta sig.