145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[21:43]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það væri óskandi að menntamálaráðherra mundi koma aftur í salinn þar sem hann var heldur ekki hérna síðast þegar ég ætlaði að ræða við hann. En allt í lagi með það. Mig langaði aðallega að nota þessa seinni ræðu mína til að vekja athygli þingheims á þessari glærusýningu, að því er virðist, frá Summu, sem heitir Endurskoðun laga um LÍN og er greining á nýju og gömlu kerfi.

Þarna kemur margt áhugavert fram, sér í lagi ákveðnar vangaveltur um það hvernig gamla kerfið og nýja kerfið eru borin saman. Það eru margir óvissuþættir, einkum hvort ákveðnir nemendur sem ekki taka lán núna munu bara taka styrk eða hvort fólk muni halda áfram að nýta sér lán og styrki að svipuðu leyti. Það sem er svolítið einkennilegt við þessa greiningu, sérstaklega þar sem hún var unnin fyrir og er eitt af grunngögnum ráðuneytisins, er að þarna er greinilega ekki nógu ítarleg úttekt. Hér segir, með leyfi forseta:

„Líklegt er að stór hluti þeirra sem ekki þiggur lán eigi ekki rétt á því vegna ónógrar námsframvindu.“

Þetta eru bara vangaveltur og nákvæmlega ekkert sem styður þær. Það virðast ekki vera nein gögn sem styðja þessa fullyrðingu, eftir því sem ég fæ best séð.

Að sama skapi get ég ekki séð að það sé reiknað með vaxtakostnaði í þeim myndum sem fylgja bæði frumvarpinu og eru í þessari fallegu glærusýningu, en vaxtakostnaður við 6,3 millj. kr. lán í gamla kerfinu með 1% vöxtum er 1,3 milljónir. Í nýja kerfinu sem er verið að leggja til er það þannig að ef við erum með lán upp á 3,76 milljónir með 3% vöxtum í 40 ár er vaxtakostnaðurinn 2,7 milljónir. Það er því margt sem þarf aðeins að skoða.

Hins vegar langar mig að vekja sérstaka athygli á glæru sem heitir Styrkur í hlutfalli við lengd náms og tegund fyrirgreiðslu. Hér segir einfaldlega, með leyfi forseta:

„Samanburður á mismunandi fyrirgreiðslu LÍN í gömlu og nýju kerfi miðað við 500 þús. kr. tekjur við 30 ára aldur.

1. Ef lánað er fyrir skólagjöldum og framfærslu felst meiri styrkur í gömlu kerfi eftir um 2,5 ár í námi.

2. Ef aðeins er lánað fyrir framfærslu felst meiri styrkur í gömlu kerfi eftir um 5 ár.

3. Ef ekkert var lánað í gömlu kerfi felst meiri styrkur í nýju kerfi.

Hvernig nemendur dreifast er lykillinn að kostnaði í nýju kerfi miðað við gamalt kerfi.“

Ég get ekki séð að þessi breyting sé stúdentum endilega til hagsbóta. Mér sýnist þessi glærusýning í raun og veru sýna fram á að nemendur fá meiri styrk út úr gamla kerfinu en nýja kerfinu. Það virðist vera út af því hversu há vaxtabyrðin er í nýja kerfinu að hér sé um að ræða að við séum að búa til einhverja „styrki“ sem eru í raun greiddir til baka í formi vaxtakostnaðar. 3% vextir í 40 ár eru þvílík vaxtabyrði. Ef við erum að tala um lán upp á 7 milljónir, sem er ekki óalgengt ef fólk fer í nám til fimm ára og þarf jafnvel að taka einhver skólagjaldalán, og miðum við 1% vexti í 40 ár eru það um 1,5 milljónir í vaxtakostnað á meðan það eru 5 milljónir ef við miðum við 3% vexti í 40 ár. Þarna sjáum við því algjöra grundvallarbreytingu á námslánum. Og námslán eiga að vera jöfnunartæki. Námslánin eiga að vera styrkurinn. Við þurfum að sjá til þess að námslánin fari til þeirra sem þurfa og að þau séu sanngjörn til þeirra sem þurfa.

Ég set verulega stórt spurningarmerki við þetta frumvarp og við þessa nálgun á það að styrkja íslenska námsmenn. Það er rétt að þeir hafa nærri því þurft að lepja dauðann úr skel. Það er ekki svo langt síðan ég þurfti að gera það. Ég sé ekki neinn sérstakan kost við þetta fyrirkomulag nema að því leytinu til að það hefði verið fínt að fá 65 þús. kr. í styrk á sínum tíma, þá hefði ég kannski mögulega nennt að flytja út aðeins fyrr. En það var ekki fyrr en ég fékk Erasmus-styrk frá Evrópusambandinu sem ég náði loksins að flytja að heiman. Við þurfum að gera á þessu algera bragarbót. Mér finnst þetta frumvarp ekki laga vandamál íslenskra stúdenta í dag.