145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[21:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við höfum verið að ræða mál hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um námslán og námsstyrki í dag og sýnist mér á mælendaskránni að komið sé að lokum umræðunnar. Þetta er eitt af þeim málum sem lagast ekki við umræðuna heldur fjölgar spurningarmerkjunum og efasemdirnar vaxa. Varðandi pólitíska stöðu málsins langar mig að segja: Hér er um að ræða þingmál sem virðist ekki vera í samræmi við markmiðsgreinina. Hér er um að ræða þingmál sem gengur þvert á þá sýn sem sett er fram í 1. gr. frumvarpsins en í henni segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að tryggja þeim sem falla undir lög þessi tækifæri til náms án tillits til efnahags.“

Þetta er að vísu samhljóða markmiðsgrein núgildandi laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna svo mönnum er þá kannski nokkur vorkunn þegar þeir hafa ekki við smíð þessa frumvarps horft á það með sjálfstæðum hætti að setja fram markmiðsgrein í samræmi við frumvarpið. Eins og ítarlega hefur komið fram í umræðu um málið hjá fjölmörgum þingmönnum, bæði þingmönnum úr stjórn og stjórnarandstöðu, er þetta mál þannig vaxið að það stríðir beinlínis gegn hugmyndinni um jafnrétti til náms.

Þar er undir bæði eins og fram hefur komið sá hluti sem lýtur að endurgreiðslu lánanna þar sem ekkert tillit er tekið til efnahagslegrar stöðu þeirra lántakenda sem um ræðir heldur er þvert á móti tekjutengingin tekin úr sambandi. Þar með er Lánasjóður íslenskra námsmanna, menntamálaráðherra, ríkið, að segja að okkur varði ekkert um það í hvaða stöðu þið eruð eða hversu fær þið eruð um að endurgreiða þessi lán vegna þess að við ætlum að horfa á þetta eins og fjármálastofnun en ekki eins og sjóður sem hefur félagslegt jöfnunarhlutverk í samfélagslegri sátt.

Á hinum endanum er það þannig þegar við tölum um lánið og stuðninginn, styrkinn, eins og réttilega hefur verið bent á í umræðunni, að það væri nær lagi að aðstöðutengja styrkhlutann og hafa lánshlutann jafnan. BHM hefur bent á að það væri miklum mun eðlilegra vegna þess að þar erum við að tala um framlag úr sameiginlegum sjóðum. Það er í þeim anda sem við ráðstöfum fé úr sameiginlegum sjóðum að við gerum það til jöfnunar. Að vísu var það sannarlega ekki gert í leiðréttingunni miklu heldur þvert á móti með þessum flata, kalda hætti sem lætur sig ekkert varða um félagslega stöðu fólks. Í ljósi alls þess sem hér hefur verið rætt og þeirrar ólánsferðar í raun og veru sem hæstv. menntamálaráðherra leggur upp í er algjörlega ljóst að málið er vont, það er til þess fallið að auka ójöfnuð og nú þegar við erum að nálgast kosningar hefur það enga stöðu til þess að verða að lögum undir núverandi kringumstæðum. Það er einfaldlega pólitískur og efnislegur veruleiki þessa máls. Það er eðlilegt í ljósi þess að hér er menntamálaráðherra, sem hefur raunar meldað sig út af hinu pólitíska sviði, í ríkisstjórn sem hefur glatað tiltrú, sem hefur glatað umboði, söguleg ríkisstjórn þar sem ráðherrar hafa vikið af vettvangi í kjölfar hneykslismála, ekki bara einn heldur fleiri, að málið er þannig statt að það gengur ekki lengra í raun og veru í þinglegri meðferð en að það fái umsagnir til þess að kalla fram þau sjónarmið sem hér hafa ítrekað komið fram í þinglegri umræðu og í áhyggjum utan úr samfélaginu öllu.

Það verður gott, það er til bóta, það er gott mál að þetta mál komist til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og hljóti þar vandaða umfjöllun. Ríkisstjórnin sem tók við eftir kosningar 2013, ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi hæstv. forsætisráðherra, er farin frá. Hún fór frá í kjölfar eins stærsta hneykslismáls sem íslensk stjórnmál hafa horfst í augu við. Hún fór frá við svo óvenjulegar kringumstæður að annað eins hefur varla sést í íslenskum stjórnmálum. Í kjölfarið tók við ný ríkisstjórn, ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar, ríkisstjórn sem strax þegar hún tók við ætlaði sér stuttan tíma til starfa. Hún lýsti sig þegar í þeirri stöðu að umboð stjórnarflokkanna væri þrotið. Umboð Sjálfstæðisflokksins og umboð Framsóknarflokksins var þrotið, umboð hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssonar var þar með líka þrotið.

Gott og vel, málið er komið fram en frá tímamótunum í apríl sl. þegar ráðherrarnir, fjármálaráðherrann og nýi forsætisráðherrann, boðuðu kosningar í haust sem reyndar fengu ekki dagsetningu fyrr en nú á dögunum hafa engin mál verið afgreidd frá Alþingi öðruvísi en í þverpólitískri sátt, með þverpólitískri aðkomu ábyrgrar stjórnarandstöðu sem hefur sest við borðið í góðri trú fyrir þingið, fyrir þjóðina og leitt til lykta hvert stórmálið á fætur öðru. Við höfum leitt til lykta ný lög um útlendinga, ný lög um millidómstig, húsnæðismálin sem voru vanbúin af hálfu félagsmálaráðherra en hlutu brautargengi með ábyrgri aðkomu allra flokka, ekki síst stjórnarandstöðunnar, lög um greiðsluþátttöku sjúklinga, ýmis lög sem lutu að haftamálum, allt í samstöðu. Af hverju? Vegna þess að pólitískar aðstæður í samfélaginu voru með þeim hætti að annað var óásættanlegt en að hér væri í raun og veru þjóðstjórn í landinu. Enginn hafði umboð til þess að keyra í gegn eða klára mál með meirihlutavaldi. Það hefur enginn reynt og það mun heldur enginn reyna fyrir þessar kosningar. Það er óeðlilegt í ljósi pólitískrar stöðu málsins, það er óeðlilegt í ljósi pólitískrar stöðu menntamálaráðherra, það er óeðlilegt í ljósi pólitískrar stöðu ríkisstjórnar Íslands og það er óeðlilegt í ljósi þess að hér höfum við boðað til kosninga og ríkisstjórnin hefur í raun og veru lokið störfum.

Gott og vel, við skulum fá fram umsagnir um þetta mál en frumvarp til laga um námslán og námsstyrki, lagt fram af hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssyni, verður ekki að lögum á þessu þingi.