145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

landlæknir og lýðheilsa.

397. mál
[22:09]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti sem við stöndum að, minni hlutinn í velferðarnefnd. Auk undirritaðrar rita undir nefndarálit þetta fulltrúi Bjartrar framtíðar, hv. þm. Páll Valur Björnsson, og fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir. Við í minni hlutanum tökum undir umsagnir frá fagráðum landlæknis um lýðheilsu og áhyggjur þeirra af því að dregið verði úr faglegu mati á umsóknum með því að breyta skipan stjórnarinnar og fækka stjórnarmönnum úr sjö í þrjá. Það verður því þannig að fagráðin munu ekki eiga fulltrúa í stjórn sjóðsins sem eiga að veita ráðgjöf til ráðherra um úthlutun og við teljum óeðlilegt að það fyrirkomulag sem hefur reynst vel sé brotið upp með þessum hópi.

Það eru auðvitað fjölmargir aðilar sem sækja í þennan sjóð. Lýðheilsumálin eru vítt málasvið, mörg félagasamtök og skólar og slíkt sækja þarna um og það þarf breiða fagþekkingu og innsýn í mismunandi þætti lýðheilsunnar.

Með því fyrirkomulagi sem frumvarpið boðar er verið að taka ákvarðanir um styrki á þrengri grunni og síður tekið tillit til þess sem efst er á baugi í hverjum málaflokki á hverjum tíma. Þá teljum við algjörlega óeðlilegt að snúa af þeirri braut sem við mörkuðum hér á síðasta kjörtímabili, að reyna að færa þetta út í faglega sjóði eftir því sem frekast væri unnt. Sumt er í höndum ráðherra sem ekki var hægt að koma úr höndum þingsins fyrr með öðrum hætti en þarna var lýðheilsusjóður til staðar og algjörlega óeðlilegt að taka fjárveitingar úr ríkissjóði úr höndum þessara aðila og setja í hendur ráðherra sem á að taka þessar ákvarðanir á grundvelli ráðgjafar þriggja manna stjórnar.

Þetta eru 245 milljónir, eins og kom hér fram í máli flokkssystur minnar, hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, og það leyfi ég mér að fullyrða að sé langt umfram það sem þegar er verið að veita til lýðheilsumála af hálfu ráðherra. Þá væri eðlilegt að fá lýðheilsusjóð til að sjá um ráðstöfun einnig á því fé sem hann hefur og ef ráðherra vantreystir stjórn lýðheilsusjóðs með þeim hætti sem frumvarpið gefur í skyn, á að fara ofan í þau mál en ekki taka þessa fjármuni þaðan og setja í hendur á ráðherra. Ef eitthvað misferst í þeim nefndum, sjóðum og stofnunum sem við höfum sett á laggirnar er ekki alltaf lausnin að leggja þær niður heldur þarf kannski að fara yfir hvað það er sem þarf að lagfæra. Að minnsta kosti fengum við engin þau rök í nefndinni sem voru sannfærandi til að styðja þessa breytingu.

Við styðjum ekki þetta frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra.