145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

þjóðaröryggisráð.

784. mál
[22:34]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að spyrja út í atriði sem ég gerði að umtalsefni við 1. umr. um þetta mál. Þá lagði ég til mjög eindregið að í þjóðaröryggisráði sæti einnig ríkistollstjóri. Hér er málum greinilega þannig fyrir komið að í því sitja, eftir því sem segir í breytingartillögu, aðilar sem hafa það fyrir starfa að verjast ógn eða ógnum. Þess vegna fagna ég því mjög að landsbjargarfulltrúinn skuli kominn hér inn vegna þess að það er örugglega mjög gott ef náttúruvá er fyrir dyrum. En ég ætla samt að segja að mér finnst vanta upp á að varnir gegn utanaðkomandi ógn eða ógnum séu mannaðar í þjóðaröryggisráði og vil þá benda á eðli starfa tollstjórans eða starfsmanna hans. Tollstjórinn er náttúrlega með starfsemi eins og við vitum öll alla daga ársins, allan sólarhringinn á landamærum Íslands. Verkefni hans er að fylgjast með öllum sendingum sem hingað koma, hvort sem þær eru stórar eða smáar, og með farþegum sem koma til landsins. Til þess hefur tollstjórinn ýmis verkfæri sem hafa orðið okkur til gæfu á undanfarandi árum. Ég tel meiri hættu nú en oft áður á því að hingað rati efni og/eða vopn sem gætu verið notuð á Íslandi til þess að fremja hryðjuverk á stórum eða smáum skala. Þess vegna spyr ég hv. þingmann og framsögumann hvers vegna tollstjórinn eigi ekki sæti í þjóðaröryggisráði (Forseti hringir.) eins og ég fór fram á á sínum tíma.