145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

þjóðaröryggisráð.

784. mál
[22:38]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Víst er það svo að ýmsir aðrir embættismenn gætu átt erindi inn í ráðið. Ég hygg samt að þeir vinni ekki með neinum hætti að sambærilegum verkefnum og tollstjórinn gerir. Af því að landlæknir er nefndur til sögunnar er það jú væntanlega af því að hann yrði kallaður til ef einhver slík vá væri yfirvofandi eða grunur um hana. En þá ætla ég líka að benda á það hvar líklegt er að slík efni mundu berast til Íslands. Það er í gegnum landamæri þar sem tollgæslan hefur eftirlit. Mig langar að biðla til hv. þingmanns og formanns utanríkismálanefndar um að taka málið aftur inn í nefndina milli 2. og 3. umr. Ég er reiðubúinn að koma fyrir nefndina og segja þar hluti sem ég get ekki sagt í þessum ræðustól um það hvers vegna ég tel nauðsynlegt að tollstjórinn eigi sæti í þjóðaröryggisráði. Ég gæti útskýrt það með greinarbetri hætti þar en hér.

En ég segi aftur: Tollstjórinn er útvörður okkar á landamærum og hann er á vaktinni alla daga ársins allan sólarhringinn til þess að varna því að hingað inn í landið rati efni, vopn, fólk sem við teljum ekki æskilegt að hingað rati. Þess vegna ætla ég að biðla til hv. þingmanns og eins og maður segir, að gera mér það til geðs að taka það aftur til umfjöllunar í nefndinni milli 2. og 3. umr. vegna þess að ég mundi síður vilja þurfa að koma fram með breytingartillögu við málið sem ég hélt að ég mundi ekki þurfa að gera þegar ég talaði um þetta við 1. umr. Þess vegna fylgdi ég málinu (Forseti hringir.) ekki fastar eftir á sínum tíma, hvorki við formanninn né aðra nefndarmenn.