145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

þjóðaröryggisráð.

784. mál
[22:40]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég árétta skoðun mína, en auðvitað er ég sannfærð um að utanríkismálanefnd er reiðubúin að halda fund og ræða þetta mál ef það er vilji þingsins. Ekkert að því að fara aftur yfir það. En ég árétta samt það sem ég sagði áðan og bið þingmanninn um að sýna því jafn mikinn skilning að niðurstaða nefndarinnar var svona. Við náðum algerri samstöðu eins og ég las upp hér áðan. Allir þingmenn undirrituðu nefndarálitið. Mjög margir af þeim hv. þingmönnum sem sátu við það borð hefðu mjög gjarnan viljað fá fleiri inn í ráðið, fleiri embættismenn, fleiri aðila, og báru upp mjög góð rök fyrir mörgu af því og tengdu það t.d. sérstaklega þeirri áherslubreytingu sem varð í þjóðaröryggisstefnunni í vinnunni á þingi, sem var að tengja hana ekki einungis varnar- og hernaðarmálum heldur líka ákveðnum málum er tengdust annars konar vá. Upp voru borin mjög góð rök fyrir því að ýmsir aðilar ættu erindi inn í ráðið. En við féllumst á þessa niðurstöðu í lokin. Ef ég sýni þingmanninum og þinginu skilning í því að taka málið eina ferðina enn til umræðu í utanríkismálanefnd þá bið ég líka hv. þingmann um að sýna þeirri niðurstöðu sem sú umræða kann að leiða af sér virðingu og sanngirni því að ég held að það geti átt við um þennan ágæta embættismann eins og svo marga aðra að þeir geti verið kallaðir til þegar þurfa þykir.