145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða hér undir liðnum um störf þingsins, og vekja athygli á því sem við vorum að tala um í gær, frumvarp hæstv. menntamálaráðherra, LÍN-frumvarpið svokallaða, sem hann lagði fram og við ræddum við 1. umr. Ég tók þá til máls og mig langar að vekja athygli á nokkrum atriðum, en segja samt fyrst að mér finnst mjög gott að við séum að taka upp styrkjakerfi fyrir námsmenn á Íslandi en við þurfum að hafa það á hreinu að það styrkjakerfi sem hæstv. ráðherra boðar í frumvarpinu er eitthvað allt annað en þau styrkjakerfi sem við könnumst best við frá Norðurlöndunum. Hér er um að ræða 65 þús. kr. styrk sem er tekjuskattstengdur. Það þýðir að þeir sem koma úr starfi og ætla í nám munu fá mun lægri styrk vegna þess að launin sem þeir hafa haft á árinu á undan skerðir hann mikið. Eins verður líka mikil skerðing á styrknum ef maður ætlar að vinna eitthvað með skólanum.

Það eru aðrir hlutir sem ég óska eftir við hv. allsherjar- og menntamálanefnd að hún taki til skoðunar í sinni vinnu, þá helst það hvernig hæstv. ráðherra áætlar að fólk borgi til baka styrkinn. Það á að taka tekjutenginguna út, það er mjög miður að mínu mati og það þarf að skoða ítarlega hvaða áhrif það hefur á stóra hópa í samfélaginu eins og konur yfir höfuð sem búa við þann ömurlega veruleika að við erum með lægri laun fyrir sömu vinnu. Konur þurfa þá að borga hlutfallslega hærra hlutfall af ráðstöfunartekjum sínum (Forseti hringir.) um hver mánaðamót en karlar sem þessu nemur.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna