145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Nær daglega eru skrifaðir nýir kaflar í þá ólánssögu sem kennd er við fyrirtækið Borgun og sölu á hlut ríkisins í því í nóvember 2014. Nýlega var frá því skýrt í fjölmiðlum, sem hafði svo sem reyndar legið fyrir síðan sumarið 2013 og fram á haustið 2013, að vegna samruna Visa í Ameríku og Visa í Evrópu mundi fyrirtækið Borgun fá í sinn hlut 6,5 milljarða kr. Það þýðir að þeir sem voru hinir heppnu kaupendur að hlut ríkisins í því fyrirtæki í nóvember 2014 fengu núna á einu bretti kaupverðið endurgreitt, þ.e. um 2,1 milljarð kr. Það er í sjálfu sér alveg ótrúlegt, eins og hér hefur margoft komið fram í máli þess sem hér stendur, að Landsbanki Íslands skyldi haga sölunni á þessum hlut ríkisins með þeim hætti sem gert var. Nú hefur Landsbankinn gripið til þess ráðs að höfða mál á hendur fulltrúum Borgunar sem keyptu af Landsbankanum og er sá málatilbúnaður farinn að líkjast allmikið sögunni af Heródesi og Pílatusi, svo það sé sagt. Það er hins vegar sérstakt áhyggjuefni að meðan á öllu þessu stendur heyrist ekki múkk í Fjármálaeftirlitinu. Ég hef talað um það áður úr þessum ræðustól að það var fyrst í mars á þessu ári sem Fjármálaeftirlitið lét eitthvað frá sér fara um söluna á Borgun og tók þá nokkuð upp í sig en hefur ekki fylgt því bréfi eftir á neinn hátt. Það tók sem sagt Fjármálaeftirlitið um 18 mánuði að komast að því að það var eitthvað varhugavert við þessa sölu, en þeir hafa ekki gert neitt utan að skrifa eitt bréf. (Forseti hringir.) Það er sérstakt rannsóknarefni.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna