145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í fyrradag kynnti ríkisstjórnin það sem áður hafði verið boðað sem afnám verðtryggingar en reyndist þegar til kom vera eitthvað allt annað. Boðskapurinn var m.a. sá að framlengja um tíu ár aðgengi lánastofnana að séreignarlífeyrissparnaði fólks og ríflega þrefalda upphæðina, í allt að 5 millj. kr. Við efnahagshrunið 2008 þegar skuldamál heimilanna keyrðu um þverbak var opnað á þá leið sem tímabundið neyðarúrræði að nýta allt að 1 millj. kr. í þessu skyni sem er núna líklega um 1,5 millj. kr. Ríkisstjórnin ætlar nú, þegar allt aðrar aðstæður eru uppi, í pólitísku keiluspili að veita lánastofnunum aðgang að þessari séreign fólks til næstu tíu ára og ríflega þrefalda upphæðina.

Séreignarlífeyrissparnaðurinn hefur fram á þennan dag verið helsta vígi og ellilífeyristrygging fólks, sparnaður sem enginn hefur mátt hrófla við, óaðfararhæf eign, og í þeim skilningi brynvarin fyrir hvers kyns ásælni banka og annarra lánastofnana. Af því að séreignarlífeyrissparnaður hefur safnast upp á löngum tíma er hann eitt af því fáa sem segja má að beri raunverulega verðtryggingu því að skammtímabankainnstæður gera það ekki og vegna mótframlagsins ber hann auk þess ávöxtun. Við skulum ekki gleyma því í umræðu um verðtrygginguna að hún tryggir ekki bara lánveitendum endurheimt útlána heldur tryggir hún líka innstæður fólks í bankakerfinu og því betur sem innstæðueignin varir lengur. Þess vegna er auðvitað mikið hagsmunamál fyrir almenning að ekki komi brestir í brynvörn séreignarlífeyrissparnaðarins, en nú virðist sú vörn brostin. Svo er því haldið fram að þessar aðgerðir séu til hagsbóta (Forseti hringir.) fyrir ungt fólk. Mér sýnist því miður að ríkisstjórnin sé í mikilli hugmyndafræðilegri ráðvillu með þetta mál.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna