145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Nú er augljóst að það eru að bresta á kosningar og því langar mig til að koma aðeins inn á væntingastjórnun. Það er mjög hættulegt og vont fyrir traust á Alþingi að verið sé að lofa fólki hlutum sem ekki er hægt að standa við og enn verra er það ef sitjandi stjórnvöld ætla sér að gefa loforð, sem þau ætlast síðan til að aðrir efni, sem aldrei var hægt að standa undir.

Í ljósi þessarar umræðu langar mig að vitna í Gunnar Smára Egilsson ritstjóra en hann ritar, með leyfi forseta:

„Nú hafa stjórnarflokkarnir í aðdraganda kosninga lofað að bæta kjör aldraðra og öryrkja, tvöfalda hringveginn, lengja og bæta fæðingarorlof, veita námsstyrki í stað lána, afnema verðtryggingu, styðja ungt fólk til húsnæðiskaupa, færa bættan hag ríkissjóðs út á land, íhuga uppboð á kvóta, lækka tolla á ostum, stórefla heilbrigðiskerfið og örugglega margt fleira sem ég hef ekki tekið eftir. Og kosningabaráttan er varla hafin. Vandinn við loforð stjórnmálamanna er að þeir sem veita þau eru engu líklegri til að framkvæma þau en hver annar. Það að draga samfélagsumræðuna í gegnum spennt loforð og karp um það hefur hins vegar dregið umræðuna niður og frá veigamestu verkefnum samfélagsins. Kjósandi getur notað þá þumalputtareglu að stjórnmálamaður sem lofar er stjórnmálamaður sem vill ekki ræða það sem mestu skiptir. Hann vill aðeins ræða það sem hann heldur að fólk vilji helst heyra og það sem setur hann í jákvætt ljós. Síðast lofuðu flokkarnir ýmsu (og mörgu því sama og þeir lofa í dag) en það fyrsta sem þeir gerðu var að lækka veiðileyfagjöld og gefa kvótagreifum, sem halda þessum flokkum gangandi, tugi milljarða. Gjöf kvótaflokkanna til útgerðarfyrirtækjanna sem reka þá er stærri en Icesave. Og gjaldþrot Seðlabankans. Og er enn í gangi.“

Þetta finnst mér vert að hafa í huga, kæru hv. þingmenn, áður en fólk missir sig í loforðaflaum sem aldrei er hægt að standa við.


Efnisorð er vísa í ræðuna