145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í fyrradag átti ég samtal við ráðherra menntamála, Illuga Gunnarsson, og fjallaði það um læsisátakið sem við erum mikið búin að ræða í þingsal og m.a. við ráðherra og búin að fá skrifleg svör og annað slíkt. Ég spurði ráðherrann sérstaklega út í ráðgjafana sem ráðnir hefðu verið og hvernig þeim hefði farnast í starfi og hvernig starfinu hefði undið fram. Spurningin snerist sem sagt í rauninni um það hvernig starfinu yndi fram og hvort ráðherra teldi að markmið þess mundu nást. Hann kom sér hjá því að svara sérstaklega um ráðgjafana. Í framhaldinu var umfjöllun á RÚV í gær um þetta mál, vegna þess að ég hafði haft af því spurnir og við fleiri hér að ráðgjafar hefðu sagt upp störfum sökum óánægju og margra annarra hluta. Á vef Ríkisútvarpsins kom fram í gær að þrír af níu manna sérfræðiteymi sem tók til starfa síðastliðið haust til þess að vinna að þessu átaki hefðu nú þegar hætt störfum. Ekki nóg með það. Það komu upp erfiðleikar í þessu teymi, sem er kannski hluti af skýringunni en hreint ekki öll, en það var óánægja með teymisstjóra. Þá var ráð Menntamálastofnunar að leggja stöðuna niður og þar með starf þessa teymisstjóra.

Staðan er þannig núna að viðkomandi aðili íhugar að fara með mál sitt til umboðsmanns Alþingis sökum þess að hún telur að brotið hafi verið á rétti hennar sem fagmanns í þessu starfi til fjölmargra ára. Mér þykir það athugunarvert þegar ráðherra kemur sér hjá því að svara því grundvallaratriði sem þessir aðilar áttu að framfylgja, þessu átaki, vegna þess að það kostar mikla peninga. Ég tel að þeim hefði (Forseti hringir.) verið betur varið eins og ég hef komið á framfæri en ekki með þeim hætti sem hér er lýst. (Forseti hringir.) Augljóslega miðar verkinu hægar og eins og (Forseti hringir.) stofnunarstjórinn segir þá hefur þetta haft áhrif á framgang verkefnisins.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna