145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera samgöngumál að umtalsefni eins og oft áður. Það er mikið rætt um samgöngumál og áætluð fjárfestingarþörf þar er um 350 milljarðar til að kerfið sé eins og það á að vera. Þar skiptir fyrst og fremst máli að ná niður umferðarslysatölum og draga úr slysum. Þess vegna megum við ekki gleyma því að það er hægt að fara ódýrari leiðir til að auka umferðaröryggi og draga úr slysum á meðan við bíðum eftir stærri og kostnaðarsamari framkvæmdum. Þar vil ég byrja á að nefna það að merkja einbreiðar brýr rétt og vel, bæði með blikkljósum og kantlínum, ákveða umferðarforganginn og draga niður hámarkshraða í kringum þær til að auka öryggi í kringum þær þangað til hægt verður að gera þær tvíbreiðar sem er forgangsmál.

Við heyrum líka mikið talað um hversu mikið er stoppað í vegköntum til að taka myndir, skoða náttúruna og annað slíkt. Sérstaklega eru það erlendir ferðamenn. Við Íslendingar getum sjálfum okkur um kennt, á flestum stöðum sem við komum á, t.d. í Evrópu, eru málaðar kantlínur á þjóðvegina sem sýna að þar megi ekki stöðva, hvað þá leggja. Ef við hefðum þessar línur hér værum við búin að draga úr þessu í staðinn fyrir að kalla alltaf eftir miklu stærri aðgerðum og fjölga útskotum, sem má vissulega gera, en það eru svona smáhlutir sem við þurfum að hugsa um til að auka umferðaröryggi og ganga í það.

Eins er með gatnamót. Flest alvarleg umferðarslys verða við gatnamót. Eitt banaslys kostar að lágmarki 100 milljónir en oft er hægt að leysa þetta mál með því að gera hringtorg fyrir 150 milljónir. Eitt banaslys er jafn dýrt og eitt hringtorg og þess vegna eigum við að ganga í þessi mál strax á meðan við erum að koma okkur í að fara í alvörufjárfestingar í samgöngumálum.


Efnisorð er vísa í ræðuna