145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[15:47]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég skrifa undir þetta nefndarálit með fyrirvara sem ég gerði grein fyrir í ræðu í gærkvöldi en finnst ástæða til að nefna hér að ég geri ekki athugasemd við vinnu hv. efnahags- og viðskiptanefndar við innleiðingu þessa máls. Ég hef hins vegar almennar efasemdir um þá þróun sem hefur verið í regluverki fjármálakerfisins og hvaða gagn það regluverk hefur gert fyrir almenning og atvinnulíf í löndum Evrópu þaðan sem þessi tilskipun kemur. Ýmsir hagfræðingar eru farnir að setja fram efasemdir um að sú aðferðafræði sem hefur verið beitt komi í raun og veru að gagni þannig að fjármálakerfið þjóni því hlutverki að þjónusta almenning og atvinnulíf í þessum löndum. Það er vegna þessara stóru spurninga sem ég kýs að sitja hjá við afgreiðslu þessa máls en ekki endilega vegna innleiðingarinnar sjálfrar í íslenskan rétt sem er auðvitað hluti af EES. Þetta eru hins vegar spurningar sem mér finnst ástæða til að við ræðum á sameiginlegum vettvangi innan Evrópu því að það eru æ fleiri sem lýsa efasemdum um þessa aðferðafræði, herra forseti.