145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[15:48]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið sem framsögumaður þessa máls og árétta að hér er um að ræða annað skrefið í innleiðingu regluverks Evrópusambandsins, svonefnt CRD IV/?CRR regluverk sem byggir á svokölluðum Basel III staðli. Fyrsta skrefið í átt að innleiðingu þess í íslenskan rétt var tekið í fyrra og regluverkið samanstendur af tilskipun um stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja og reglugerð um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja.

Það er rétt að árétta að við úrvinnslu málsins sem var nokk klárað í vor var nefndinni umhugað um varfærnissjónarmið og sérstakar aðstæður á íslenskum fjármálamarkaði og gætti að smærri fjármálafyrirtækjum, að þeim yrði ekki íþyngt meira en nauðsyn kræfi. Ég vil benda hv. þingmönnum á breytingartillöguskjal, tölulið nr. 22, þar sem bætt er við nýju bráðabirgðaákvæði um aukið svigrúm við innleiðingu verndunarauka í þessu samhengi.