145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Enginn vafi er á að þessi langtímaáætlun forgangsraðar í þágu heilbrigðisþjónustunnar eins og ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur gert allt kjörtímabilið. Það er alveg sama hvaða tölur við nefnum eða skoðum í því, þetta snýst ekki bara um hvað menn ætla að gera, heldur geta menn bara skoðað tölurnar eins og þær liggja fyrir, að það hefur verið gert. Í fyrsta skipti er komin langtímaáætlun, fjármögnunaráætlun um Landspítalann og þar er gert ráð fyrir fjármunum upp á þrjú hjúkrunarheimili. Við leggjum hins vegar áherslu á — þetta eru ekki fjárlög heldur langtímaáætlun — eins og kom fram í máli mínu að við teljum að forgangsraða eigi enn frekar til þess málaflokks og tölum t.d. um það að í stað þess að fara í stjórnarráðsbyggingarnar strax ættum við frekar að fara í hjúkrunarheimili, svo eitthvað sé nefnt.

Þetta eru ekki fjárlög, þetta er langtímaáætlun, en við vekjum athygli á því að við þurfum líka að fara aðrar leiðir og þá eigum við að læra af þeim þjóðum sem gengur betur. Þá erum við að tala um að framkvæma sjúkratryggingalögin, að við kostnaðargreinum þjónustuna og semjum við þá aðila sem veita þjónustuna, þar með talið Landspítalann. Landspítalinn hefur kallað eftir þessu alla vega í áratug, jafnvel lengur, af því að hann vill vera með sambærilega fjármögnun eins og þeir spítalar sem Landspítalinn ber sig saman við á Norðurlöndum. Þetta er leið sem við viljum þróa okkur í vegna þess að það er besta leiðin til að ná þeim markmiðum sem við viljum ná, því að markmiðin eru auðvitað að veita bestu þjónustuna, vera með flestar aðgerðir, taka niður biðlistana og ekki hafa komið fram, mér vitanlega, neinar aðrar betri aðferðir en þessar. Þessi langtímaáætlun ber fyrst og fremst öll einkenni þess, og svo sannarlega líka nefndarálit meiri hlutans, að verið er að forgangsraða í heilbrigðismálum eins og hefur verið gert allt þetta kjörtímabil. Það er fagnaðarefni.