145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af heilbrigðismálunum. Hér eru áætlanir um uppbyggingu Landspítalans og uppbyggingu hjúkrunarheimila. Menn geta skoðað það hvernig var sparað á síðasta kjörtímabili, bæði hlutfallslega og í tölum, og séð síðan samanburðinn varðandi það sem er gert núna. Menn geta ekki, þegar menn skoða þetta, komist að neinni annarri niðurstöðu en þeirri að forgangsraðað hefur verið til heilbrigðismála. Það verður hins vegar aldrei nóg. Það vita allir þeir sem að málaflokknum hafa komið, það er eðli málaflokksins. En bæði í ríkisfjármálaáætluninni og í fjárlögum undanfarinna ára í tíð núverandi ríkisstjórnar, og sömuleiðis í nefndarálitinu, er alltaf verið að forgangsraða í þágu heilbrigðismálanna.

Varðandi Keflavíkurflugvöll er ekki verið að leggja til að selja Keflavíkurflugvöll, heldur er verið að tala um að setja fjármagn upp á 70–90 milljarða inn í það verkefni. Á sama tíma, við getum farið betur í það á eftir, er verið með flugvelli sem samkvæmt upphaflegum hugmyndum áttu að heyra beint undir Isavia en eru mjög illa farnir. Við erum ekki að nýta innanlandsflugið. Ef við setjum alla áhættuna á þetta varðandi aukninguna, þessa gríðarlegu fjármuni, þá erum við auðvitað að auka mjög áhættu ríkisins (Forseti hringir.) og skattgreiðenda, það segir sig sjálft. Þannig að spurningin (Forseti hringir.) á ekki alveg við, virðulegi forseti.