145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[16:29]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér finnst nefndarálit meiri hlutans ágætt, ýmsir punktar í því sem ég er sammála þó svo að ég sé nú ekki alltaf sammála stefnunni.

Hér er talað um útgjaldavöxt málefnasviða á bls. 8 í nefndarálitinu. Meiri hlutinn hefur áhyggjur af því að kannski sé verið að færast of mikið í fang varðandi útgjöldin, það megi lítið út af bregða og leggur í raun til að þegar fjármálaáætlun komi til endurskoðunar verði miðað við lægri útgjaldaramma. Það er t.d. bent á að á seinni hluta tímabilsins sé gert ráð fyrir 30% aukningu framlaga til utanríkismála og svo er talað um aukin framlög til vinnumarkaðsmála. Þarna er bent á eitthvað sem meiri hlutinn vill væntanlega draga úr. Nú er þetta tvennt kannski tiltölulega lítið í stóra samhenginu, utanríkismálin t.d., þótt auðvitað sé alltaf eðlilegt að spara þar sem það er hægt, en þetta eru þannig séð ekki stóru upphæðirnar. Hvar sér hv. þingmaður fyrir sér að sé hægt að draga saman á móti? Á sama tíma erum við örugglega sammála um að við stöndum frammi fyrir áskorunum t.d. í vegamálum og uppbyggingu ýmissa innviða, jafnvel tækjakosti, tölvukosti og öðru sem hefur setið á hakanum. Hvar sér hv. þingmaður fyrir sér að sé raunverulega hægt að ná fram einhverjum sparnaði á útgjaldahliðinni?