145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hlý orð um að nefndarálitið sé ágætt. Ég held að það hljóti að hjálpa stjórnarandstöðu að fá svona plagg vegna þess að það er mjög gagnrýnið og ég tel að það hafi verið okkar hlutverk. Ég er ekki viss um að meiri hluta fjárlaganefndar geri það almennt með þeim hætti, í það minnsta hafa menn stundum verið í því að reyna að fegra hlutina. Nú er bjart fram undan, en hins vegar eiga menn alltaf að hafa varann á sér.

Við fórum mjög vel yfir þetta en eins og kom fram þá komum við hins vegar ekki með tillögur um breytingar innan ríkisfjármálaáætlunarinnar. Það mun bíða þeirra sem taka við eftir næstu kosningar. En margt smátt gerir eitt stórt og þetta eru allt saman peningar. Við erum að vísa hér í ýmislegt. Í utanríkismálunum vísum við í hagræðingaraðgerðirnar. Við vísum í stjórnsýsluna í vinnumarkaðsmálunum, það hefur vakið athygli hvernig hún hefur þróast svo einhver dæmi séu tekin. Við tölum um útboðsmálin og húsnæðismál ríkisins og breytta forgangsröðun hvað þá hluti varðar.

Svo sannarlega er rétt hjá hv. þingmanni með innviðina, við þurfum að finna leiðir til þess að fara í uppbyggingu þeirra og fjármagna þá. Þegar við skoðum þá breyttu stöðu sem við Íslendingar erum í varðandi ferðamennina, þeir nýta mikið þessa innviði, keyra á vegunum, þeir nýta því miður of lítið flugvelli, við vekjum athygli á því, þá er það nokkuð sem við þurfum að nálgast, við þurfum að ákveða hvernig við ætlum að fjármagna það. Ætlum við að láta íslenska skattgreiðendur greiða allt sem snýr að uppbyggingu fyrir ferðamenn? Auðvitað eru íslenskir skattgreiðendur oft líka ferðamenn, en menn hljóta að horfa til þess sérstaklega að það er kannski ekki skynsamlegt að íslenski skattgreiðandinn greiði fyrir alla þá innviðauppbyggingu. Við vekjum athygli á þessu (Forseti hringir.) af góðri ástæðu en fórum nú ekki lengra í þessu fyrsta nefndaráliti um ríkisfjármálaáætlun.