145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[17:12]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. En fyrst um barnabæturnar. Barnabætur ættu að leggjast með hverju barni og jafna stöðu barnafólks við stöðu annarra. Við í Samfylkingunni viljum að tekjuskatturinn sé þrepaskiptur og þar komi tekjutengingin inn en að stefnt skuli að því að barnabætur verði ótekjutengdar nema hugsanlega á ofurlaun, það mætti skoða það. Ég vil líta til norrænu ríkjanna eftir fyrirmynd fyrir breytingum á skattkerfinu. Norrænu ríkin eru talin bestu velferðarríki heimsins og þar hafa jafnaðarmenn verið oftast við í meiri hluta ríkisstjórnar og ráðið því hvernig samfélögin hafa verið byggð upp. Pólitíski armur verkalýðshreyfingarinnar hefur þar verið áhrifaríkastur og almannahagur varinn. Auðvitað eigum við langt í land með okkar skattkerfi að ná því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum en þangað eigum við að stefna.

Hv. þingmaður talaði um veiðigjöld. Ég vil að við förum leið Færeyinga og bjóðum út aflaheimildirnar. Núverandi ríkisstjórn hefur lækkað veiðigjöldin um 9 milljarða. Við getum a.m.k. fengið það til baka með því að bjóða út aflaheimildirnar og enn meira ef boðið verður í með svipuðum hætti og nú gerist í Færeyjum.

Aðeins sú einföldun sem hæstv. ríkisstjórn fór í í tekjuskattskerfinu með því að taka út milliþrepið kostaði okkur 11 milljarða. (Forseti hringir.) Orkuskatturinn kostaði okkur 2 milljarða og auðlegðarskatturinn rúma 10. Ég skal ræða betur um auðlegðarskattinn í seinna andsvari mínu.