145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta prinsipp varðandi barnabæturnar er nákvæmlega það sama og hv. þingmaður gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir, að leiðréttingin væri í raun ekki tekjutengd, hún kom að vísu fyrst og fremst millistéttinni til góða. Það er nákvæmlega sama prinsipp með barnabæturnar af því að ég er að tala um ótekjutengdar barnabætur þannig að það er alla vega ekki hægt að tala um það í því samhengi að það sé eitthvert sérstakt jöfnunartæki.

Hv. þingmaður, ef ég skil hana rétt, telur að það eigi að setja aftur á eða hækka orkuskattinn og tekjuskatt einstaklinga en það kemur ekki fram með beinum hætti í álitinu. Ég spurði hv. þingmann um gjaldið fyrir auðlindirnar af því að í álitinu er bara vísað í því samhengi til veiðiheimildanna og ef ég skil hv. þingmann rétt þá vill hún bjóða út veiðiheimildir. Færeyingar buðu að vísu út bara mjög lítinn hluta, en það væri gott að fá að vita hvernig hv. þingmaður sér það fyrir sér, hvort hér eigi bara að bjóða út lítinn hluta eða hversu stóran og á hvaða forsendum. En ég skil hv. þingmann þannig, hún leiðréttir mig ef ég hef rangt fyrir mér, að hún vilji endurvekja svokallaðan auðlegðarskatt. Þá væri ágætt ef hv. þingmaður mundi skýra betur þessa aðra fjármögnun fæðingarorlofs, hvort sú fjármögnun eigi að tengjast eitthvað útgjöldunum eins og gert hefur verið með tryggingagjaldinu, eða hvaða skattahækkanir um er að ræða.

Ég skal nú viðurkenna að þetta er orðið svolítið mikið, við erum komin með orkuskattinn, hækkun á tekjuskatti einstaklinga, 10 milljarða skattahækkun á ferðaþjónustuna. En það er óljóst hvaða auðlindir er um að ræða sem á að taka gjald fyrir og þá hvernig. Sömuleiðis varðandi útboðsleiðina og veiðiheimildir. Hvað er hv. þingmaður nákvæmlega að tala um þar? Er hann að tala um allar veiðiheimildir?