145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Virðulegur forseti. Það er mér sönn ánægja að mæla fyrir áliti 3. minni hluta Bjartrar framtíðar í þessu mikilvæga máli og er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að sitja í fjárlaganefnd og vinna lög um opinber fjármál með fjárlaganefnd í góðri samvinnu og fá tækifæri til að fá fyrstu fjármálaáætlunina í hendur og vinna nefndarálit upp úr henni. Það verklag sem við erum að fara inn í og fjármálaáætlun er fyrsta skrefið og er gríðarlega mikilvægt. Ég bind vonir við að það muni auka á stöðugleika, aga og festu í ríkisfjármálunum og grundvallaratriðið er að hugsa aðeins lengra fram í tímann og vera með stefnumótun í þessum 34 málefnasviðum og svo málaflokkana undir hverju málefnasviði. Það er gríðarlega mikilvægt.

Stjórnsýslan hefur unnið gott starf. Mér finnst ástæða til að hrósa henni fyrir framlagið því að maður sér að þarna er ný hugsun í gangi. Ég vil líka taka fram að við göngum út frá því að verklagið eigi eftir að slípast og meiri samræming verði kannski milli ráðuneytanna.

Það sem ég vil gera athugasemdir við í þessari fyrstu fjármálaáætlun er að þar sem við erum bara með málefnasviðin og sjáum hvaða fjárveiting fer í ákveðið málefnasvið sjáum við ekki hvernig þeir fjármunir deilast síðan niður á málefnaflokkana, við sjáum bara heildarsummuna. Við vitum því ekki alltaf hvort í einhverjum málefnaflokkum eða málaflokkum eigi að fara í sparnað eða auka kannski í öðrum, það liggur ekki alveg fyrir. Svo finnst mér líka að markmiðin eða aðgerð og verkefni sem ráðuneytin útlista, sem er afrakstur af stefnumótunarvinnu sem hefur farið fram í ráðuneytunum, séu mjög metnaðarfull og það er gott. En mér finnst ég alveg sjá hjá flestum ráðuneytum að fjárveiting fylgir ekki þessum metnaðarfullu verkefnum. Það sem maður mundi vilja sjá í framhaldinu í fjármálaáætlun framtíðarinnar er að stefnumótunin miðist við fjárframlögin þannig að verkefnin séu skilgreind og þeim forgangsraðað síðan út frá fjárheimildum sem hverju málefnasviði er ætlað.

Ég skipti þessu niður í helstu málefnasviðin. Auðvitað hefði svona nefndarálit getað orðið miklu lengra, en einhvern tímann verður maður að hætta.

Það er fyrst háskólastigið. Það eru vonbrigði finnst mér að ekki sé gert ráð fyrir auknu fjármagni í háskólastigið á næstu fimm árum svo neinu nemur. Það virðist í rauninni vera treyst á það að nemendum fækki allverulega. Við vitum að á háskólastiginu eru framlög á hvern nemanda lægri en að meðaltali í OECD-ríkjunum og lægri en annars staðar á Norðurlöndunum. Þó er það stefna Vísinda- og tækniráðs að framlag á hvern háskólanema verði sambærilegt við það sem gengur og gerist á Norðurlöndunum árið 2020. Við erum ekki að ná því markmiði miðað við þessa áætlun.

Síðan er ítrekað verið að tala um að fjárframlög á hvern nemanda hafi verið hækkuð bæði í framhaldsskólum og í háskólum. Þau hafa þó ekki hækkað í samræmi við þann fjölda nemenda sem verið hefur í skólakerfinu þar sem ekki hefur verið tekið tillit til fjölgunar nemenda undanfarinna ára. Fjárframlögin á hvern nemanda hækka þá ekki nema skólar fari að takmarka verulega aðgang að námi. Það hafa þeir ekki gert. Við vorum lengi vel á þeim stað að hlutfall háskólamenntaðra var hér á landi lægra en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Svo er ekki lengur, en ég velti fyrir mér hvort eigi að hverfa af þeirri braut vegna þess að við greiðum framlög fyrir færri nemendur en raunverulega stunda nám. Í fjármálaáætluninni segir orðrétt: „Til að auka gæði í háskóla- og rannsóknarstarfsemi verður áhersla lögð á að hækka framlög á hvern ársnema í stað þess að auka á umfang kerfisins.“ Ég veit ekki hvernig á að skilja þetta öðruvísi en að stjórnvöld telji að hlutfall háskólamenntaðra sé orðið ásættanlegt og nú eigi gagngert að fækka nemendum. Á sama tíma liggur ekki fyrir nein pólitísk ákvörðun um það hvaða námsbrautir eigi undan að láta en það hlýtur að vera pólitísk ákvörðun. Við vitum til dæmis að skortur er á raungreina- og tæknimenntuðu fólki, en ég sé ekkert í áætluninni sem gefur til kynna hvernig eigi að bregðast við því, hvort við ætlum að fækka nemendum í háskólum, hvort fækka eigi í félagsvísindadeild eða hvar á að fækka. Mér finnst stefnan akkúrat í þessum málaflokki ekki nógu góð og ekki metnaðarfull.

Síðan tekur 3. minni hluti undir með Ríkisendurskoðun sem bendir á í umsögn sinni að á sama tíma og gert sé ráð fyrir styttingu náms til stúdentsprófs sé ekki fjallað um það hvernig eigi að bregðast við tvöföldum útskriftarárgangi á háskólastigi sem hlýtur að vera óhjákvæmileg afleiðing af styttingu framhaldsskólans. Á einhverjum tímapunkti munu flykkjast fleiri nemar í háskóla landsins.

Síðan gagnrýnir 3. minni hluti einnig að ekki sé að finna í fjármálaáætlun framtíðarsýn varðandi húsnæðismál Listaháskólans en mjög brýnt er að skólinn fái sem fyrst viðeigandi húsnæði.

Á framhaldsskólastiginu erum við líka á sama stað, þ.e. hlutföll útgjalda til framhaldsskólastigsins eru undir meðaltali OECD-ríkjanna. Við vitum og það hefur ekki farið fram hjá neinum að framhaldsskólarnir hafa búið við mjög þröngan kost undanfarin ár. Gert er ráð fyrir 12% raunvexti á tímabilinu. Einnig er fyrirhugað að sá sparnaður sem næst vegna styttingar náms og minni árganga verði eftir í framhaldsskólakerfinu. Það er jákvætt og ég vona að það gangi eftir. Víða er orðin uppsöfnuð þörf á kaupum á tölvum og öðru slíku í framhaldsskólanum því að hann hefur verið þungur lengi.

Í Hvítbók um umbætur í menntun kemur fram að einungis 14% nemenda skrái sig í starfsnámsbrautir að loknum grunnskóla sem er mjög lágt hlutfall miðað við Norðurlandaþjóðirnar eða Evrópuríkin. Nauðsynlegt er að fjölga nemendum í verknámi eins og ítrekað hefur verið bent á, en ekkert liggur fyrir hvernig eigi að ná því markmiði. Eins og ég sagði áðan eru dæmi um að skólar hafi ekki getað endurnýjað nauðsynlegan tækjabúnað sem er nauðsynlegur í verknámi. Við köllum því eftir skýrari stefnu frá stjórnvöldum hvað þetta varðar.

Ég hef gagnrýnt læsisátakið og set spurningarmerki við það fjármagn sem er sett í það átak en um er að ræða 660 milljónir á fimm árum. Í ljósi þess að töluvert vantar upp á að fjárveitingar til framhaldsskóla- og háskólastigs nái þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sjálf sett þá finnst mér þessi forgangsröðun gagnrýniverð og slíkt átak ætti að rúmast innan fjárheimilda Menntamálastofnunar og grunnskóla landsins.

Ég vil koma aðeins á rannsóknir og þróun. Gert er ráð fyrir auknu fjármagni í rannsóknir, þróun og nýsköpun sem er jákvætt og stefnan í þessum málaflokki í heild er bara skynsamleg, en ég vil vekja athygli á að það er áhyggjuefni hversu illa styrkir virðast skila sér út fyrir stórhöfuðborgarsvæðið. Sem dæmi má nefna að rúmlega 90% af styrkupphæðum Tækniþróunarsjóðs fóru á höfuðborgarsvæðið og Suðurnes árið 2015. Ég tel mjög mikilvægt að greina hvað býr hér að baki og að stjórnvöld reyni eftir fremsta megni að tryggja að hið opinbera styrkjakerfi á þessu sviði nýtist sem víðast á landinu. Nú veit ég ekki hvað veldur, hvort það eru miklu færri umsóknir eða verri umsóknir eða hvað það er. Mér finnst að fara þurfi aðeins ofan í saumana á þessu og reyna að dreifa viðkomandi sjóðum sem víðast en þó auðvitað þannig að alltaf verði tryggt að verkefni sem eru styrkt uppfylli öll skilyrði.

Heilbrigðismálin eru auðvitað risastór flokkur. Ráðgert er að auka fjármagn til þeirra fjögurra málefnasviða sem heyra undir heilbrigðismálin um 14% á tímabilinu. Þar vega þyngst framkvæmdir við nýjan Landspítala sem er löngu tímabær framkvæmd, bygging sjúkrahótels og tækjakaup. Almenn sátt virðist um að heilbrigðismál séu sett í forgang og nauðsynlegt sé að efla heilbrigðiskerfið eftir langvarandi niðurskurð.

Mig langar aðeins að ítreka og minna á að ekki er síður mikilvægt að nýta vel fjármagnið sem þegar er sett í heilbrigðiskerfið. Fyrirhugað er að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað. Það er mjög skynsamlegt, en ekki er að sjá að meira fé verði sett í málaflokkinn sem neinu nemur næstu fimm árin. Það er skortur á heimilislæknum þótt sérnámsstöðum hafi fjölgað. Björt framtíð telur því að hægt sé að bæta þjónustu og hagræða með því að nýta miklu betur þekkingu og reynslu þeirra fjölbreyttu heilbrigðisstarfsstétta sem við eigum hér á landi. Það er mjög oft sem aðrar starfsstéttir en læknar geta sinnt þeim sem leita til heilsugæslunnar og mun meira en nú er gert. Við sjáum dæmi um árangursríka þróun í nágrannalöndunum þar sem nefna má hjúkrunarfræðinga sem hafa víða leyfi til að ávísa getnaðarvörnum og sjúkraþjálfara sem eru fyrstu meðferðaraðilar varðandi stoðkerfisvanda.

Síðan er mjög athyglisvert að aukning sjúkdóma sem rekja má til lífsstíls hefur í för með sér gríðarlegan kostnað fyrir heilbrigðiskerfið og virðist bara aukast. Má segja að það sé í raun óskiljanlegt að við leggjum ekki allt kapp á að hemja þróunina með öllum ráðum og beita forvörnum í stað lyfja.

Í Lyfjastefnu til ársins 2020 er fjallað um mikilvægi forvarna sem lið í því að minnka lyfjanotkun. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Sem dæmi má nefna að ef tækist að fækka sjúklingum með sykursýki II um 10% (þ.e. um 1.500 sjúklinga) með hreyfingu og breyttu mataræði mundi beinn kostnaður lækka um 750 millj. kr. á ári. Svipuð dæmi er hægt að nefna um aðra sjúkdóma, s.s. hjarta- og æðasjúkdóma, offitu, þunglyndi, o.fl.“

Þetta eru engar smá upphæðir. Það yrði hátt í milljarð ef 10% sjúklinga sem nú þurfa að taka sykursýkislyf mundu ekki þurfa þess ef þeim tækist að breyta um lífsstíl. Það er ekki alltaf þannig að auðvelt sé fyrir fólk að breyta um lífsstíl. Fólk fær aðstoð við það. 3. minni hluti telur því borðleggjandi að starfsstéttir eins og næringarfræðingar og sjúkraþjálfarar séu hluti af þjónustu heilsugæslunnar og komi í rauninni að meðferð allra sjúklinga sem gætu fengið bót meina sinna með því að breyta um mataræði og auka hreyfingu. Það er mjög gott markmið að hreyfiseðlar verði öllum aðgengilegir frá og með árinu 2017, en það þarf að fara að okkar mati í mjög markvissar aðgerðir þar sem allt kapp er lagt á að aðstoða fólk við að velja heilsusamlegan lífsstíl. Þarna er hægt að spara gríðarlega mikla peninga og bæta lífsgæði fólks.

Geðrænir sjúkdómar, við höfum rætt um þá í þinginu og samþykkt geðheilbrigðisstefnu til fjögurra ára. Það er gott en gera þarf enn betur í þeim málum. Við leggjum til að aðgengi t.d. að sálfræðingum í framhaldsskólum eigi að vera mjög gott. Einnig leggjum við áherslu á að fjarheilbrigðisþjónusta verði nýtt í meiri mæli.

Fyrirhugað er að reisa fimm ný hjúkrunarheimili og styrkja daggjaldagrunn hjúkrunarheimila en rekstur þeirra margra hefur verið þungur. Það er bara jákvætt. En Björt framtíð leggur áherslu á að mikilvægt sé að tryggja aðgengi að dvöl á hjúkrunarheimili þegar þörf krefur, en á sama tíma séum við líka með áherslu á að auka heimaþjónustu til eldri borgara. Það er þjónusta sem felur í sér aukin lífsgæði og kostnaður er minni.

Svo viljum við líka leggja áherslu á að við á hverjum tíma reynum að tryggja nægan fjölda af hæfu starfsfólki í heilbrigðiskerfinu. Það er jafnvel kannski ein stærsta áskorunin, þ.e. að eiga nóg af hæfu heilbrigðisstarfsfólki til að standa undir velferðarkerfinu. Þar skiptir máli menntun, þjálfun og góð laun. Það þarf að huga að þessu.

Til umhverfismála eykst fjármagn lítillega á næstu fimm árum, í þann málaflokk, eiginlega er mjög lítil aukning. Á sama tíma eru miklar áskoranir. Ísland hefur skrifað undir Parísarsamkomulagið og skuldbindur sig til að fara í aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við þurfum að gera það. Það þarf ekki endilega alltaf að kosta peninga. Björt framtíð leggur áherslu á að við séum að búa til hvata þannig að umhverfisvænsta lausnin sé sú hagkvæmasta. Það er jákvætt að setja peninga í að byggja upp rafhleðslustöðvar og það er mjög metnaðarfull stefna sem ríkisstjórnin hefur að árið 2020 sé hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum 10%. En ég vil þá vekja athygli á því og gera athugasemdir við það að þegar stjórnvöld eru með svona metnaðarfulla stefnu og ráðherrar ríkisstjórnarinnar geta ekki einu sinni keypt sér bíla sem nýta endurnýjanlegt eldsneyti þá fallast manni svolítið hendur. Það er ekki að sjá að stefna ríkisins þegar kemur að innkaupum á bifreiðum fyrir hið opinbera sé umhverfisvæn. Ég hef lagt fram skriflega fyrirspurn um þetta en svörin hafa ekki verið endilega mér að skapi.

Það er ljóst að vegakerfið, svo ég fari aðeins inn í samgöngurnar, þarf að bæta. Tafla er í nefndarálitinu sem sýnir framlög til vegamála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Það er mikil aukning ferðamanna og aukning í samgöngum eykur álag á vegakerfið, og svo höfum við þurft að draga úr framkvæmdum eftir hrunið þannig að það er gríðarlega mikil uppsöfnuð þörf í vegakerfinu. Líka er eiginlega alveg óásættanlegt að ekki sé enn búið að samþykkja samgönguáætlun. Þarna er risastór málaflokkur sem er að mörgu leyti í ólestri. Við skulum kannski ekki gleyma því að við erum fámenn þjóð í dreifbýlu landi og við gerum miklar kröfur, víða eru malarvegir og við erum enn þá með einbreiðar brýr, jafnvel á þjóðveginum. Við þurfum að gera mun betur í þessum málaflokki.

Ferðaþjónustan er orðin mjög mikilvægur atvinnuvegur á Íslandi, eða mikilvæg atvinnugrein. Ég var með fyrirspurn einhvern tíma til atvinnuvegaráðherra um framlög til rannsókna í ferðaþjónustu, sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði. Í ljós kom að framlög til rannsókna í ferðaþjónustunni voru 170 millj. kr. árið 2013 meðan það voru t.d. 2,9 milljarðar í sjávarútvegi og hátt í milljarður í landbúnaði og 1,3 milljarðar í iðnaði. Við höfum ekki rannsakað þessa atvinnugrein mikið og vissulega er mismunandi hversu mikil þörf er fyrir rannsóknir. En samkvæmt fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir 500 milljónum í rannsóknir í ferðaþjónustu á tímabilinu sem þýðir í rauninni enn minni framlög en undanfarin ár. Ég vona að það sé þá einhver ákvörðun sem byggi á einhverjum rökum að við teljum að við þurfum ekki að rannsaka þessa atvinnugrein meira en þetta.

Margt jákvætt hefur verið gert eins og að auka fjármagn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og breyta líka úthlutunarreglunum og koma til móts við sveitarfélögin, það skiptir miklu máli. 3. minni hluti telur að ekki sé lengur þörf á ívilnandi aðgerðum fyrir ferðaþjónustuna, sem er vissulega ung atvinnugrein en samt ekki svo ung, og að kominn sé tími til að ferðaþjónusta og gisting fari í efra þrepið. En það er auðvitað ekki gert í einu vetfangi. Það þarf að plana það og eiginlega þyrfti að fara að gera það vegna þess að við eigum að geta haft meiri tekjur af þeirri atvinnugrein en nú er. Ríkisstjórninni er tíðrætt um skilvirkni í skattkerfinu. Þá vill 3. minni hluti bara benda á að það er mun einfaldari skattlagning að hækka virðisaukaskatt í efra þrepið og sleppa gistináttagjaldinu sem skilar tiltölulega litlu í ríkissjóð en er gjald sem krefst töluverðrar umsýslu. Svo minni ég á að eiginlega allar atvinnugreinar búa við 24% virðisaukaskatt af starfsemi sinni. Mér finnst orðið mjög erfitt að réttlæta það að ferðaþjónustan eigi að vera undanskilin. Ef þetta efra þrep þykir of íþyngjandi fyrir ferðaþjónustuna þá hlýtur sú spurning að vera áleitin hvort efra þrepið sé þá ekki of hátt fyrir íslenskt atvinnulíf yfir höfuð og hvort þetta efra þrep sé þá bara ekki of hátt. Þá skulum við bara taka þá umræðu.

Aðeins um skuldastöðu og vaxtakostnað. Ráðgert er að greiða niður skuldir. Það er mjög gott, það er mikilvægt, vegna þess að vaxtakostnaður hefur verið of mikill. Ég vona bara að þetta gangi eftir. Þetta byggir samt á spám eða markmiðum um sölu ríkiseigna og arðgreiðslna.

Aðeins um lífeyrisskuldbindingarnar líka. Fyrirhugað er að greiða inn á lífeyrisskuldbindingarnar vegna B-deildar, það er líka mjög mikilvægt. Þar er mikil áhætta sem er ekki svo langt inn í framtíðina, þannig að ég tek undir þetta. Síðan er fjallað um í áætluninni að ráðgert sé að hækka eftirlaunaaldur úr 67 árum upp í 70. Það er afar nauðsynlegt, en hækkunin á ekki að taka að fullu gildi fyrr en eftir 24 ár. Ég tek nú undir með meiri hluta fjárlaganefndar að það er allt of langur tími. Þótt vissulega þurfi tíma í svona breytingu þá þarf hún að ganga hraðar í gegn.

Ég fer þá aðeins í skatta og tekjur. Tekjuskattsþrepum hefur verið fækkað úr þremur í tvö. Að mati 3. minni hluta hefur stjórnarmeirihlutinn misst sjónar á því mikilvæga hlutverki sem tekjuskattskerfið þjónar til tekjujöfnunar í samfélaginu. Við teljum að þessi fækkun þrepa gangi á svig við það markmið að auka jöfnuð í samfélaginu. Það er vissulega mikilvægt verkefni að einfalda skattkerfið, en að mati Bjartrar framtíðar væri mikilvægara í því markmiði að gera það í gegnum virðisaukaskattskerfið.

Síðan er alltaf þessi spurning hvort við getum ekki fengið meiri arð af auðlindum. Við teljum svo vera. Þar getum við líka nefnt raforkuna, sjávarauðlindina og ferðaþjónustuna, svo dæmi séu tekin. Við eigum að geta haft meiri tekjur. Stjórnvöld hafa líka afsalað sér, það er kannski ekki gott að nota orðið afsala sér, en það eru þeir tekjustofnar sem menn því miður hafa ekki verið að sækja.

Mig langar líka aðeins að koma inn á sveitarfélögin. Það er áhyggjuefni að staða þeirra batnar ekki mikið á meðan ríkissjóður tekur verulega við sér. Sveitarfélögin hafa gagnrýnt með hvaða hætti tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga er háttað. 3. minni hluti tekur undir þær áhyggjur og þá gagnrýni og telur brýnt að farið verði ofan í saumana á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Það kemur kannski ekki á óvart en mér finnst það ekki ásættanlegt að stefna og sýn varðandi Íbúðalánasjóð skuli ekki vera skýrari. Hún er það kannski ekki hjá neinum flokki, en við þurfum öll að líta í eigin barm. Þetta er svona eins og heit kartafla, Íbúðalánasjóður. Það er í rauninni þannig að útistandandi ríkisábyrgðir vegna sjóðsins nema 900 milljörðum kr. Það er einhvern veginn ýjað að því að leggja þyrfti hann niður en svo er ekkert meira um það. Stefna stjórnvalda í þessum málaflokki er því ekki alveg skýr.

Gert er ráð fyrir því í fjármálaáætluninni að samþykktur verði búvörusamningur til tíu ára. Þá er skemmst frá því að segja að Björt framtíð hefur lagt fram frávísunartillögu um það mál þannig að það verði unnið betur. Þetta er gríðarleg skuldbinding. Ég geri engar athugasemdir við að samningur gildi til langs tíma, það getur verið gott og mikilvægt fyrir atvinnuvegi að hafa fyrirsjáanleika inn í framtíðina, en slíkur samningur yrði auðvitað að vera þannig að sátt væri um hann.

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að tala um skuldaniðurfellinguna sem 3. minni hluti var alfarið á móti og taldi að þarna væri verið að dreifa 80 milljörðum til ákveðinna heimila og nota í rauninni skattpeninga til þess á ómarkvissan og óskynsamlegan hátt. Á sama tíma var uppsöfnuð þörf á uppbyggingu innviða orðin gríðarlega mikil og ráðherrar í ríkisstjórninni hafa sumir hverjir tekið undir þau sjónarmið að meira fé vanti til viðhalds og verkefna í mikilvægum málaflokkum eins og vegamálum og menntamálum. Eins var áformum um uppbyggingu nýs Landspítala frestað í upphafi kjörtímabils vegna þess að ekki var til „fjármagn fyrir steypu“. Þá vill 3. minni hluti árétta að ráðherrar í ríkisstjórninni ákváðu sjálfir að forgangsraða hlutunum með þessum hætti. Ef við hefðum nýtt þessa 80 milljarða á annan hátt til dæmis með því að nota hluta til að greiða niður skuldir og svo í uppbyggingu í menntamálum, heilbrigðismálum og þar sem þess væri þörf værum við í annarri stöðu í dag. Umræðan um fjármálaáætlun ber auðvitað keim af því að sú ákvörðun var tekin og staðan væri betri ef hún hefði ekki verið tekin að mati 3. minni hluta.

Aðeins um veikleika í áætluninni. Búist er við áframhaldandi hagvexti út allt tímabilið sem vonandi gengur eftir. Síðan er þess vænst að ríkið geti selt hlut sinn í fjármálafyrirtækjum og einnig gerum við ráð fyrir arðgreiðslum sem hafa verið töluverðar undanfarin ár. Það er þá forsenda þess að hægt verði að lækka skuldir ríkisins svo einhverju nemi. Síðan hefur verið bent á að fjármálastefnan þyrfti að styðja betur við peningamálastefnu Seðlabankans. Það er vissulega undirliggjandi þensla í hagkerfinu. Utanaðkomandi þættir sem hafa svolítið kannski bjargað okkur, eins og lágt olíu- og hrávöruverð, sem hefur haldið verðbólgunni í skefjum og svo hefur krónan verið að styrkjast. 3. minni hluti tekur undir þær áhyggjur. En það er auðvitað mikil áskorun að stýra efnahagsmálum á þenslutíma þegar jafnframt er mikil þörf fyrir innviðauppbyggingu. Svo hefur reynslan sýnt okkur að erfiðara er að stýra þegar vel gengur en jafnvel á krepputímum. Svo eru kosningar fram undan, þannig að við eigum eftir að sjá lögð fram fjárlög hérna þar sem ýmislegt gæti komið í ljós. En ég get tekið undir það sem kom fram í nefndaráliti meiri hlutans að það þarf að passa sig og stíga varlega til jarðar. Við megum ekki missa okkur.

Mig langar að enda á að nefna að mér finnst merkilegt hvað litlar kerfisbreytingar hafa í raun verið gerðar í tíð þessarar ríkisstjórnar. Menn hafa verið að sameina einhverjar stofnanir og stundum með ærnum tilkostnaði. Vissulega var framhaldsskólinn styttur. Það var breyting sem var keyrð í gegn í rauninni án mikils samráðs eða þá nokkurs samráðs eða undirbúnings. Þau sparnaðaráform sem við höfum séð hafa einkennst af flötum niðurskurði í stað þess að kafa ofan í málaflokkana og hlutirnir hugsaðir upp á nýtt. Það getur alltaf verið gott að spyrja sig hvernig væri ef við værum að búa til þetta kerfi í dag, hvernig við mundum gera það frá grunni. Það sem væntanlega stendur því fyrir þrifum að oftar sé ráðist í gagngerar endurbætur á einstaka sviðum er sú staðreynd að of algengt er að ný ríkisstjórn hætti við verkefni sem mikil vinna hefur verið lögð í, sóknaráætlun landshlutanna er gott dæmi um það. Svo er líka, því miður, allt of lítil hefð fyrir því að í mikilvægum stefnumálum sé gerð tilraun til að ná þverpólitískri sátt þannig að menn vinni mál sem ná út yfir kjörtímabil, út yfir setu einstaka ráðherra. Það er von 3. minni hluta að með lögum um opinber fjármál festum við í sessi langtímahugsun og vönduð vinnubrögð við stefnumótun þannig að við getum farið að taka einstaka málaflokka, vonandi þverpólitískt, og gera á þeim breytingar sem við teljum að séu góðar til framtíðar og getum treyst því að því ferli verði haldið áfram þó að stjórnarskipti verði eftir tvö ár eða fjögur ár eða hvernig sem það er.

Að því sögðu lýk ég máli mínu og endurtek hvað ég er ánægð með að hafa fengið tækifæri til að fá að mæla fyrir þessu nefndaráliti við fjármálaáætlunina. Maður hafði ekkert annað nefndarálit til að miða við því að þetta eru fyrstu nefndarálitin sem eru skrifuð við fjármálaáætlun, þannig að ég mun lesa þau í framtíðinni mér til ánægju og yndisauka, nefndarálitin við fjármálaáætlun framtíðarinnar.