145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[18:25]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi stöðuna í sjávarútveginum þegar fyrirtæki selja kvóta burt úr byggðarlögum, við þekkjum þetta eins og hv. þingmaður nefndi úr Þorlákshöfn en það er ekki langt síðan þetta gerðist á Djúpavogi og einnig á Húsavík. Ég held að þetta sé óhjákvæmilegt alveg óháð því hvort við erum með uppboðsleið eða ekki. Það er mikið áhyggjuefni. En í fljótu bragði finnst manni eðlilegt að við notum þann arð sem verður til, vegna þess að þarna eru fyrirtæki að hagræða og væntanlega verður þá til meiri arður, til að styðja við þau byggðarlög sem verða fyrir skaða. Þarna situr fólk með fasteignir sínar og atvinnumöguleikarnir eru yfirleitt ekki mjög miklir þannig að það er alveg borðleggjandi að það eigi að styðja við fólkið og síðan að nýta byggðakvóta. Það er bjargræði sem við höfum. Hann er að sumu leyti umdeildur en það er mjög mikilvægt að nýta hann til þess að bregðast við í byggðarlögum þar sem kvótinn er allt í einu farinn eða stór hluti hans og fólk situr beinlínis eftir í súpunni. Ég mundi vilja sjá miklu meiri stuðning við byggðarlög sem hafa lagt sitt til samfélagsins en eru síðan sett út á guð og gaddinn þegar kvótinn er farinn. Við getum gert miklu betur þarna.

Ég er sammála með sæstrenginn að það er spennandi hugmynd og sjálfsagt að kanna hana ofan í kjölinn. En ef þetta þýðir að við þurfum að fara í stórfelldar virkjanir get ég alveg sett spurningarmerki við það. Það sem mér finnst skipta mestu máli eins og staðan er í dag er að ef við förum út í virkjunarframkvæmdir sé a.m.k. alveg ljóst að við fáum góðan arð fyrir vikið. Ef við förum út í náttúruna, og við munum að sjálfsögðu fylgja rammaáætlun í þeim efnum, eða ég ætla að vona að næsta ríkisstjórn gerir það líka, þá þarf að vera alveg á hreinu að það sé þess virði og að við fáum eitthvað fyrir okkar snúð.