145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[18:27]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni í dag hér í þingsal um tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2021. Rétt eins og hefur komið fram í gagnrýni minni hlutans er margt sem þarf að athuga, sér í lagi tek ég undir þá gagnrýni sem lýtur að heilbrigðiskerfinu. Það virðist ekki vera sett nógu mikið í heilbrigðiskerfið. Það virðist heldur ekki vera þannig í þingsályktunartillögunni, í þessari fjármálaáætlun, að það eigi að bæta úr því eins og þörf er á.

Við erum náttúrlega búin að ganga í gegnum rosalega sérstakt tímabil í heilbrigðiskerfinu. Læknar og hjúkrunarfræðingar hafa farið í verkfall upp á margar vikur sem er alveg einstakt fyrir norrænt velferðarríki þannig að ég tek undir það sem minni hlutinn hefur sagt um kröfu þess efnis að við þurfum að auka útgjöld til heilbrigðiskerfisins. Þá langar mig til að minna á þær kannanir sem þingflokkur Pírata hefur látið gera undanfarin þrjú ár sem snúa að því hvernig almenningur vill láta forgangsraða sameiginlegu skattfé sínu. Þar hefur ítrekað komið í ljós að almenningur vill að skattfé sé varið í heilbrigðiskerfi.

Það er ekki bjóðandi að greiðsluþátttaka sjúklinga sé bara að aukast meðan við erum í góðæri, erum alla vega að stíga inn í góðæri. Á sama tíma hafa innviðir heilbrigðiskerfisins algerlega molnað í sundur. Ég veit ekki hversu mörg húsnæði á vegum Landspítalans innihalda myglu. Sömuleiðis þurfum við að passa upp á að launakjör heilbrigðisstéttarinnar séu samkeppnishæf miðað við útlönd, þá sér í lagi Norðurlöndin.

Mig langar einnig til að vekja athygli á því að það er í raun og veru ekki gert neitt verulegt varðandi menntakerfið, sérstaklega háskólakerfið, í samhengi við LÍN-frumvarpið sem kom frá hæstv. menntamálaráðherra í gær. Það virðist ekki vera heil brú á milli fjármálaáætlunar og þeirra útláta sem virðast felast í því frumvarpi. Stærsti áhættuþátturinn í því máli er einmitt hversu margir einstaklingar sem eiga rétt á námslánum muni taka námslán. Það hefur ekki verið kannað til hlítar af menntamálaráðherra eða menntamálaráðuneytinu hvernig skipting námsmanna er sem ekki taka námslán. Sömuleiðis þarf algerlega að skoða og áhættugreina það hvort einhver hætta sé á því að erlendir EES-ríkisborgarar komi hingað til lands til að sækja þennan styrk en danski ríkissjóðurinn hefur lent í verulegum kostnaðaraukandi vandræðum, liggur við að segja, kostnaðurinn hefur farið úr 5 milljörðum dönskum yfir í 340 milljarða danska á um tíu árum við það að borga undir þá EES-ríkisborgara sem eiga rétt á námsstyrk þar. Mér þykir svolítið sérstakt að sjá að þetta virðist ekki ríma nógu vel saman og það er í sjálfu sér ámælisvert þar sem við erum greinilega að reyna að búa til heila brú með fjármálaáætluninni og reyna að sjá til framtíðar. Það er mjög áhugavert þegar maður les hérna um stuðning við námsmenn að það er bara ekkert gert ráð fyrir því í fjármálaáætluninni, eins og t.d. þessum kostnaðaraukandi aðgerðum sem breytingar á námslánasjóðnum fela í raun og veru í sér. Það er mjög áhugavert.

Sömuleiðis verð ég að taka undir með minni hlutanum varðandi ferðaþjónustuna. Ferðaþjónustan er náttúrlega sívaxandi grein á Íslandi. Nú veit ég ekki hvort það er meira en ein og hálf milljón ferðamanna sem koma hingað á hverju ári. Þetta er gífurlega mikið álag á vegakerfið og heilbrigðiskerfið og alla innviði okkar. Mér finnst ríkisstjórnin ekki hafa gert nógu mikið á því sviði, hvorki til að afla tekna af ferðamönnum né að byggja upp þá innviði sem þarf til þess að við getum tekið á móti svona mörgu fólki. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að við höfum ekki efni á að missa þann iðnað sem ferðaþjónustan er, að ferðaþjónustan hrynji. Það þýðir bara að við þurfum að hugsa svolítið vel um hana, búa vel að ferðaþjónustunni, og þá sérstaklega að skapa öryggi þannig að ferðamenn upplifi sig örugga á Íslandi. Það gengur ekki að ferðamenn séu ítrekað að keyra á einbreiðar brýr af því að þeir hafa aldrei séð einbreiða brú áður. Sjúkraflutningar eru einfaldlega ekki nógu hraðir. Það eru fleiri þúsund manns sem fara gullna hringinn á degi hverjum á sumrin og það þarf að vera viðbúnaður við því eins og er á öðrum stórum ferðamannastöðum í heiminum. Þá er sjúkralið á staðnum. Reyndar hefur því verið breytt og það er verið að koma því á að það sé sjúkralið og læknir í viðbragðsstöðu á helstu ferðamannastöðum landsins. Það er gott, en það er líka kostnaðaraukandi fyrir ríkið.

Ein leið er að hækka gistináttagjaldið og það þarf náttúrlega líka að renna til sveitarfélaganna, þau bera líka einhverja byrði sem tengist því að styrkja innviði fyrir ferðaþjónustuna. Að sama skapi tek ég sér í lagi undir þá röksemdarfærslu sem hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir kom með að það væri svolítið erfitt að verja það að ferðaþjónustan væri í lægra skattþrepi miðað við flestar aðrar greinar, sem eru í efra þrepi en ekki neðra.

Síðan er annað sem mætti athuga betur. Ég veit að þegar maður keyrir í gegnum Tékkland þarf að borga vegskatt. Maður kaupir bara límmiða sem settur er á rúðuna. Þetta kostar nokkur þúsund krónur og á að fara upp í kostnaðinn við að keyra á vegakerfinu á bíl sem maður borgar ekki skatt af í því landi. Mér finnst þetta vera mögulega leið sem við getum farið. Það er mjög auðvelt að fylgjast með erlendum bílum sem koma hingað til lands, t.d. í gegnum Norrænu. Ég held að þetta ætti ekki að vera neitt sérstaklega mikið mál. Og sömuleiðis er önnur mjög einföld leið til að auka tekjur ríkissjóðs af ferðamönnum, það er að hætta með eða lækka Tax Free-endurgreiðslur sem ferðamenn fá. Það er bara reglugerðarbreyting og ég hef minnst á þetta áður í þessum þingsal. Þarna eru nokkrir milljarðar sem við erum að láta til baka í hendur ferðamanna. Ég skil ekki alveg af hverju. Nú eru tímar þar sem við þurfum að byggja upp innviði, þar sem vegakerfið okkar er sprungið. Við þurfum á þessum peningum að halda. Ferðamenn nota innviðina okkar til jafns við okkur. Ég held að þetta væri mjög einföld leið. Það bjóða ekki öll lönd upp á Tax Free. Við erum ekki í einhverri sérstakri samkeppni við önnur lönd um að geta boðið upp á sérstaka skattafslætti fyrir túrista. Ég sé ekki af hverju ferðamenn ættu að þurfa einhverja sérstaka skattafslætti af þessum böngsum og lundum sem þeir kaupa. Þetta er eitthvað sem mætti athuga, sér í lagi þar sem þetta er mjög einfalt að laga.

Ég ætla ekki að vera í pontu mikið lengur en ég set smáspurningarmerki við heildarmynd þessarar þingsályktunartillögu, um það hvort hún birti í raun og veru framtíðarsýn velferðarsamfélags eða framtíðarsýn neyslusamfélags. Þá horfi ég sérstaklega til kaflans um ungt fólk og fjármögnun á húsnæði þar sem er í sömu andrá sagt að fólk eigi að hafa raunverulegt val um búsetuform en samt eiga allir að eignast hlutina. Mér finnst þetta vera svolítið mikil stýring í átt til þess að við þurfum að vera efnishyggjuleg. Ég set spurningarmerki við það, hvort við séum að reyna að ýta undir neyslusamfélag í stað þess að vera með framtíðarsýn.

Að lokum langar mig til að undirstrika að það er mjög mikilvægt að umboðsmanni Alþingis verði tryggð ákveðin grunnrekstrarframfærsla til þess að geta sinnt sinni vinnu, sérstaklega frumkvæðisrannsóknum. Það kom upp fyrir fjárlögin í fyrra, fyrir fjárlagaárið 2016, að það sem umboðsmaður hafði gengið út frá að hann mundi fá átti að taka í burtu frá honum. En hann þarf mun meira en það. Það þarf að gera upp húsið sem hann er í, það er fínn salur þar á efstu hæð sem Alþingi gæti notað fyrir fræðslu og umboðsmaður sömuleiðis. Við þurfum líka að huga að fræðsluhlutverki stofnana ríkisins. Ég held að þarna sé prýðilegt tækifæri til að búa til einhvers konar vettvang þar sem bæði umboðsmaður og Alþingi geta verið með fræðslu og fleira í þessum fallega sal efst uppi í Þórshamri. Sömuleiðis er alveg óboðlegt, verður bara að segjast, að framkvæmdir við lyftu hjá umboðsmanni hafi ekki farið fram, þannig að hreyfihamlaðir geta ekki farið þar upp, hann er á efstu hæð í gömlu húsi, einu af fyrstu steinsteypuhúsunum í Reykjavík og það er hægara sagt en gert að labba upp alla þessa stiga. Þetta er ekki fyrir aldraða eða öryrkja eða einhverja sem eiga erfitt með gang eða þá sem eru bundnir við hjólastól. Umboðsmaður Alþingis á að sjálfsögðu að vera aðgengilegur fyrir alla. Þetta er mjög vandræðalegt og ég hvet til þess að leyst verði úr þessu sem fyrst.

Að öðru leyti langar mig að undirstrika mikilvægi þess að eftirlitsstofnunum Alþingis, bæði umboðsmanni Alþingis og ríkisendurskoðanda, verði tryggðir þeir fjármunir sem þær þurfa til þess að geta sinnt sinni vinnu af sóma. Þetta eru mjög mikilvægar stofnanir fyrir lýðræðið. Það er mikilvægt að við styrkjum þau eftirlitsembætti sem við erum með. Það er ástæða fyrir því að við erum með þau og þau eru þarna til þess að styrkja lýðræðið og hafa eftirlit með okkur og vera ákveðið úrskurðarvald og varnagli. Við megum ekki gleyma því. Ég fagna því í fyrsta lagi að þessum viðhorfum sé flaggað í þingsályktunartillögunni og vona að það verði áfram stefna ríkisstjórnarinnar og hún muni ekki hvika frá henni.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt miklu lengra en þetta. Á heildina litið er þetta mjög merkilegt plagg, gaman að fá að glugga í það, það hefði verið gaman að geta tekið meiri þátt í þeirri vinnslu. En ég þakka minni hluta og meiri hluta hv. fjárlaganefndar fyrir þá góðu vinnu sem þau eru búin að leggja í við þetta plagg.