145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[18:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nefnd hv. þm. Péturs Blöndals var starfandi þegar ég fór úr heilbrigðisráðuneytinu. Það var ekkert gert með þá vinnu sem þar var unnin. Hins vegar tók, eins og hv. þingmaður nefndi, hæstv. ráðherra Guðbjartur Hannesson málið upp seinna á kjörtímabilinu og tók þá einungis út lyfin sem var auðvitað skref í rétta átt, en að mínu áliti er skynsamlegra að hafa þetta allt undir eins og við gerðum þetta núna.

Ég er svo sem ekki að sýta það að hv. þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna hafi skipt um skoðun og komið á vagninn með það, ég þakka hv. þingmönnum fyrir þá vinnu sem þeir lögðu í til að koma málinu í gegn. En, virðulegi forseti, hv. þingmenn geta ekki komið og sagt þetta þegar fyrir liggur að meira og minna allar uppsagnir opinberra starfsmanna á síðasta kjörtímabili voru í heilbrigðisgeiranum. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn sem ég lagði fram fyrir þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, á meðan önnur störf voru varin og bætt í annars staðar eins og í utanríkismálunum og umhverfisráðuneytinu og undirstofnunum þess. Það er sjálfsagt að vilja gera enn betur, en að tala með þessum hætti og láta að því liggja að hér sé um það að ræða að þessi ríkisstjórn — það er kominn ríkisreikningur, ekki bara fjárlög heldur ríkisreikningur sem sýnir að það er búið að auka útgjöld og framlög til heilbrigðismála, bæði í milljörðum og hlutfallslega. Og að koma hér og tala svo með þeim hætti eins og hér er gert, það verður hver og einn að eiga það við sig. En þeir sem hafa áhuga á málinu geta flett upp í ríkisreikningum, borið saman hvernig að þessu var unnið, ekki bara í (Forseti hringir.) milljörðum heldur líka hlutfallslega. Þá sjá menn það (Forseti hringir.) í verki hverjir hafa lagt áherslu á heilbrigðismálin.