145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[19:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvelt að leika með tölur en ég er hér með svar heilbrigðisráðherra til hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur um greiðsluþátttöku og biðtíma eftir aðgerðum í heilbrigðiskerfinu. Þá er spurt um heildarútgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af landsframleiðslu. Árið 2010 í miðju hruninu voru þau 7,1% af landsframleiðslu. Árið 2015 eru þau enn 7,1% landsframleiðslu. Auðvitað er landsframleiðslan mun meiri árið 2015 (Gripið fram í.) en allt tal um uppsagnir verður auðvitað að taka mið af því hvaða aðstæður voru uppi. (Gripið fram í.) Ég verð að segja að ríkisstjórn með þingmenn innan borðs sem stóðu hér og gerðu lítið gagn annað en að níða niður ráðherra þáverandi ríkisstjórnar og sýndu lítinn skilning og lögðu lítið af mörkum, koma svo í ríkisstjórn með arfleifð frá þeirri ríkisstjórn sem er batnandi hagur ríkissjóðs og efnahagslegur stöðugleiki og leyfa sér svo að tala eins og hér hafi ekki orðið efnahagshrun og það sé hægt að bera saman fjárlagaárið 2010 og 2011 við fjárlagaárin 2017–2021. Það þurfa að vera miklu metnaðarfyllri áform en voru hér í mesta niðurskurðinum eftir hrunið. (GÞÞ: Hver var að …) Að tala eins og að þessi ríkisstjórn sé metnaðarfull í samanburði við fyrri ríkisstjórn er í besta falli óskammfeilið. Ég ítreka þau orð mín, frú forseti, að hér þarf að auka útgjöld til heilbrigðismála langt umfram það sem ríkisfjármálaáætlun gerir ráð fyrir.