145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

ákall um uppbyggingu heilbrigðisþjónustu.

[10:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög einkennilegt að hlusta á hv. þingmann ræða um það að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar taki ekki tillit til þeirrar kröfu sem uppi er um aukin framlög til heilbrigðisþjónustunnar þegar höfð er í huga sú áhersla sem á þennan málaflokk er lögð í fjármálaáætluninni til ársins 2021. Ég minnist þess ágætlega þegar ég ræddi þetta mál og kynnti málaflokkinn heilbrigðisþjónustu við fjárlaganefnd á sínum tíma þegar fjármálaáætlunin var þar til umræðu, hvaða áherslur þar væru lagðar. Ef við horfum bara á sjúkrahúsþjónustuna, þar eru útgjöldin að vaxa frá árinu 2016 til 2021 úr tæpum 75 milljörðum upp í rúma 90 milljarða kr. Og menn tala um að ekki sé verið að mæta óskum um aukin framlög í sjúkrahúsþjónustuna. Ég kalla þetta vöxt, það getur vel verið að hv. þingmaður hafi allt annan skilning á þessu.

Með sama hætti er gert ráð fyrir í fjármálaáætluninni að raunvöxtur í heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa sé 12% á áætlunartímabilinu. Með sama hætti og ég gerði fjárlaganefnd grein fyrir er ráðgert að á áætlunartímabilinu verði byggt yfir fimm ný hjúkrunarheimili. Ég kalla þetta að bæta í þjónustuna. Ég skal vera fyrstur manna til að taka undir með hv. þingmanni að það má vel gera betur á þessu sviði eins og mörgum öðrum, en það er langur vegur frá að ætla að það sé einhver sérstakur vilji hjá stjórnvöldum í þessu landi að hunsa þá miklu áherslu sem almenningur í landinu hefur á þennan málaflokk. Þvert á móti vil ég minna hv. þingmann á að frá fjárlögunum sem hv. þingmaður gekk frá árið 2013 hafa útgjöld til þessa málaflokks verið aukin um hátt í 40 milljarða kr. (Forseti hringir.) Einhverjir hefðu kallað það pening.