145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

ákall um uppbyggingu heilbrigðisþjónustu.

[10:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum að hlýða á hv. þingmann, fyrrverandi fjármálaráðherra, tala um fjármálaáætlunina sem hér er lögð fram til fimm ára, sem er tímamótaplagg, eins og hún sé tillaga að fjárlagafrumvarpi ársins fyrir næsta ár. Hún er ekki tillaga að fjárlagafrumvarpi. Það er alveg viðurkennt og það á hv. þingmaður að gera sér grein fyrir sem fjárlaganefndarmaður að mikið svigrúm er í fjármálaáætluninni til að mæta einstökum útgjöldum. Og að ræða það í þessu samhengi að 5,3 milljarða vöntun í Landspítalann í 190 milljarða veltu í heilbrigðismálum ráði og skipti sköpum. Það er bara ekki eðlilegt að ræða þetta út frá þeim samanburði. Ég fullyrði það að samkvæmt áætlunum stjórnvalda, hvort sem það er í fjármálaáætlunin eða grunni að fjárlögum næsta árs, er ekki gert ráð fyrir því að þjónusta Landspítalans eða Sjúkrahússins á Akureyri muni dragast saman. Það er rangt af hv. þingmanni að gefa það til kynna og það er ekki sanngjarnt að ræða (Forseti hringir.) málefni heilbrigðiskerfisins með þeim hætti.