145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

breytingar á fæðingarorlofi.

[10:48]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir fyrirspurnina. Ég veit að við hv. þingmaður erum báðar miklir áhugamenn um að þetta verði að lögum, sá mikli lagabálkur sem snýr að því að bæta kjör barnafjölskyldna á Íslandi. Varðandi kostnaðinn við frumvarpið erum við að vinna núna að kostnaðarmati í ráðuneytinu en sú nefnd sem lagði þessar breytingar til reiknaði út kostnaðinn við þær tillögur. Það er þannig að samkvæmt fjárlögunum núna er gert ráð fyrir að það séu 8,8 milljarðar sem eru útgjöld Fæðingarorlofssjóðs. Það verður væntanlega eilítið undir því vegna þess að fæðingum hefur, eins og hv. þingmaður nefndi, fækkað eitthvað. Laun hafa hins vegar hækkað á móti þannig að gert er ráð fyrir því að breytingarnar á greiðslufyrirkomulaginu, annars vegar að fá 100% af launum sínum upp að 300.000 kr. og hins vegar að hámarksgreiðslur verði þá 80% upp að 600.000, að kostnaðurinn við það verði 12,2 milljarðar miðað við 4.700 börn. Í fyrra fæddust tæplega 4.100 börn.

Varðandi lenginguna á fæðingarorlofinu, og um það er mestur ágreiningur og hann kom mjög skýrt fram í nefndinni, er lagt til að það lengist um einn mánuð á tímabilinu 2019–2021 og gert er ráð fyrir að ef það eru mæður sem fá mánuðinn sé það í kringum 1.250 milljónir en ef það eru feður er áætlað að það sé í kringum 1,6 milljarðar.

Varðandi fjármögnunina er ekki langt síðan það kom fram, held ég í fréttatilkynningu í fjármálaráðuneytinu, að vegna einmitt hækkandi launa hefur tryggingagjaldið skilað verulega auknum fjármunum inn í ríkissjóð án þess að verið sé að hækka það. Ég tel rétt að ráðstafa þeim fjármunum í að bæta kjör fjölskyldna á Íslandi.

Við sjáum líka í þeim tölum sem ég fékk í hendurnar í gær að það er (Forseti hringir.) sem betur mjög minnkandi atvinnuleysi á Íslandi þannig að þeir fjármunir sem þingið ráðstafaði í Atvinnuleysistryggingasjóð ganga heldur ekki út, sem er mjög gott.