145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

upphæð barnabóta.

[11:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Barnabætur sem greiðast jafnt til allra eru ekkert líkar skattafslætti, bara ekki neitt. Hérna stendur eftir spurningin hvers vegna Samfylkingin vill fylgja þeirri stefnu að taka sjóði sem eru takmarkaðir og dreifa þeim jafnt til allra alveg óháð því hvernig staða þeirra er í samfélaginu (Gripið fram í: Lánasjóðurinn.) Það er vandamálið. Það er vandamálið við stefnu Samfylkingarinnar. [Kliður í þingsal.] Hún leiðir einfaldlega til þess að menn seilast sífellt dýpra í vasa skattgreiðenda til þess að safna sjóðum sem þeir ætla síðan sjálfir að deila út um samfélagið. Það er stefna sem við höfum ekki fylgt. Það ætti ekki að koma neinum á óvart. Mín skoðun er sú þegar kemur að bótakerfunum að það eigi að beina fjármununum þangað þar sem mest er þörfin, við eigum að gera það. Svo eigum við að leyfa fólki að halda sem allra mestu eftir af sjálfsaflafé til þess að ekki þurfi að treysta á háar bætur. Þannig eru breytingarnar sem eru að verða í húsnæðisstuðningi með nýjum frumvörpum sem félagsmálaráðherra hefur mælt fyrir með húsnæðisbótum, (Forseti hringir.) og ég veit að hv. þingmaður er ágætlega ánægður með, og aðrar breytingar sem við sjáum. Þær eru góðar (Forseti hringir.) vegna þess að þær gera fólki betur kleift að standa á eigin fótum (Forseti hringir.) en þurfa ekki að treysta á bætur frá ríkinu.