145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Forseti. Það er að sjálfsögðu rétt að ungt fólk byrjar almennt ekki strax í meðaltekjum þegar það kemur inn á vinnumarkaðinn, en það greiðir þá ekki nema sem því nemur inn í séreignarsparnaðarkerfið. Það eina sem við gerum hér er að opna fyrir þann möguleika fyrir þá sem það vilja að taka þann sparnað sem myndast yfir tíu ára tímabil út skattfrjálst. Það er það sem við erum að gera. Við erum að bjóða upp á þann valkost ef menn vilja. Það er varla hægt að deila um að það mun létta undir með fólki varðandi það að spara fyrir útborgun í íbúð, spara fyrir höfuðstól, eigið fé, til þess að ráðast í fasteignakaup. Það finnst mér að eigi að vera kjarnaatriði umræðunnar hér. Það er í raun og veru ekki hægt að gera ágreining um að þetta mun létta undir með fólki. Svo getum við rætt hversu mikið þarf að gera, hversu langt eigi að ganga. En við teljum ekki verjandi að ganga lengra en það að taka tíu ár af slíkum séreignarsparnaði skattfrjálst út.